FSE, Evrópusamtök handritshöfunda, hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna voðaverkanna í Frakklandi.
Evrópskir handritshöfundar eru miður sín yfir hinum óhugnanlegu fjöldamorðum á teiknurum og ritstjórum franska háðsádeiluritsins Charlie Hebdo í París þann 7. janúar síðastliðinn. Sem handritshöfundar fordæmum við þetta tilræði við frelsi okkar til tjáningar og sköpunar. Tjáningarfrelsið er hin nauðsynlega forsenda sköpunar. Morðin í París vega að rétti okkar til að tala, viðra skoðanir okkar, segja okkar sögur. Til stuðnings þeim sem týndu lífi sínu höfnum við hryðjuverkum, þögn og uppgjöf.