Gagnrýni | Hvíti guðinn

white-god[column col=“1/2″][message_box title=“Hvíti guðinn (Fehér isten)“ color=“gray“] [usr 3,5] Leikstjóri: Kornél Mundruczó
Handrit: Kornél Mundruczó, Viktória Petrányi og Kata Wéber
Aðalhlutverk: Zsófia Psotta, Sándor Zsótér og hundarnir Luke & Buddy.
Lengd: 119 mínútur.
Ungverjaland 2014
[/message_box][/column]Ung stúlka hjólar eftir yfirgefnum strætum Búdapest. En þegar hún fer yfir eina af risabrúnum sem tengja Búda og Pest þá sjáum við hundahjörð koma hlaupandi á eftir henni. Að öðru leyti eru göturnar auðar. Fyrir utan tvöhundruð hunda og eina stúlku.

Ég man ekki eftir að hafa séð öllu magnaðri byrjun á bíómynd heldur en þegar ég horfði á Hvíta guðinn í bíói í Búdapest. Jafnvel smáatriðin festust í minni – meðal annars prentaðist klæðnaður stelpunnar inní hausinn á manni, enda einkennilega á skjön. Hún Lili er nefnilega ekki vön að vera í dömulegum prinsessuskóm, hún virðist kunna betur við sig í slitnum strigaskóm. En einmitt þess vegna fer um mann þegar hún fer, treglega, í fínu skónna löngu seinna í myndinni.

Við hittum Lili næst í öllu rólegri Búdapest, þar sem mamma hennar er að fara í langferð og skilur hana eftir hjá skilningssljóum pabba hennar. Pabbanum er afskaplega illa við hundinn Hagen, sem virðist vera langbesti vinur Lili, og spenna myndarinnar felst fyrst og fremst í því hvernig það á eftir að atvikast að þessi hundelska stelpa á eftir að verða (bókstaflega) hundelt síðar meir af öllum hundum borgarinnar.

Lili er afskaplega góð en einmana stelpa og Hagen mikill öðlingshundur. En þeim er augljóslega skapað að skilja og eyða megninu af myndinni í að leita að hvort öðru. Þannig séð minnir plottið óneitanlega á gamla Lassie-mynd en þó minnir hún miklu meira á Birds Hitchcocks eða nýlegar forsögumyndir Apaplánetunnar. En þótt plottið sé öllu þéttara og úthugsaðra í Apaplánetumyndunum nýju þá situr Hvíti guðinn ólíkt meira í manni. Mögulega bara af því ég hef aldrei klappað apa eða leikið við apa – þótt apakettirnir séu miklu skyldari okkur eru hundarnir miklu betri jarðtenging fyrir fantasíuna. Þeir eru alls staðar í kringum okkur á meðan aparnir eru aftur á móti þægilega fjarlægir – og þannig verða hryllileg örlög maneskjunnar á Apaplánetunum þægilega fjarlæg líka.

Rétt eins og í Apaplánetunni eru samskipti manna og dýra giska flókin og bæði vondar og góðar skepnur finnast hjá báðum dýrategundunum. Á meðan Lili leitar af Hagen á hún í alls kyns útistöðum við pabba sinn, kennara sem og jafnaldra og á meðan þvælist Hagen með öðrum útigangshundum og lendir í alls kyns útistöðum við vafasamar manneskjur.

Ævintýri hundana eru á köflum kómísk og á köflum grótesk – en vitneskjan um hvað á eftir að gerast sveipar þó öll ævintýri þeirra óþægilegri ógn. Hundahluti myndarinnar er raunar sannarlega fimm stjörnu virði, en hinn mennski hluti myndarinnar er miklu mun síðri. Þar er þó ekki við aðalleikkonuna Zsófia Psotta að sakast – þvert á móti vinnur hún leiksigur, það er sjaldgæft að sjá barnaleikara leika af svona mikilli næmni. Veikleikinn er því ekki Lili, heldur allar hinar manneskjurnar sem eru óttalega litlausar flestar og ævintýri Lili í mannheimum alls ekki nógu spennandi.

En svo skiptir auðvitað máli að myndin er gerð í fyrsta ríki Evrópusambandsins sem hefur kosið yfir sig fasistastjórn frá því í heimstyrjöldinni síðari. Það er raunar óþægilegt að horfa á myndina af einmitt þeim sökum framan af – þegar maður er ekki alveg viss hvert hún er að fara. Hundarnir eru ansi augljós vísun í sígauna og aðra minnihlutahópa – og meðferðin sem þeir fá er álíka slæm. Framan af var það raunar hluti af spennu myndarinnar – er myndin mögulega réttlæting á rasisma? Svo reynist sem betur fer ekki – og svo var maður auðvitað límdur við kreditlistann að bíða eftir því hvort setningin „No animals were harmed during the making of this motion picture“ birtist ekki örugglega í lokin.

Sem hann gerir blessunarlega – og þegar maður les sér til um myndina eftir á þá er framleiðslusaga myndarinnar raunar ekki síður áhrifamikil. Það ráðlögðu allir hundasérfræðingar leikstjóranum Kornél Mundruczó frá því að nota flækingshunda í myndinni en þótt Hagen sé leikinn af tveimur atvinnuleikurum þá voru hinir hundarnir flestir sóttir í hundaathvörf í Ungverjalandi – og það tókst að finna heimili handa þeim öllum eftir að tökum lauk. Því hver vill ekki eiga hund sem er kvikmyndastjarna og hafa unnið til verðlauna á Cannes? *

*Það eru í alvörunni sérstök verðlaun fyrir leik hunda á Cannes – The Palm Dog Award – og hafa verið veitt í fjórtán ár. Fyrir utan það að myndin sjálf hlaut aðalverðlaunin í næst stærsta keppnisflokknum, Un Certain Regard.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR