Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson var rétt í þessu að hljóta Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs en verðlaunaafhendingin stendur yfir þessa stundina. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd hlýtur þessi eftirsóttu verðlaun.
Verðlaunin nema 350.000 dönskum krónum eða um 7,3 milljónum íslenskra króna.
Leikstjórinn, Charlotte Boving eiginkona hans og aðalleikkona myndarinnar og Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi eru stödd á verðlaunaafhendingunni.
Í rökstuðningi dómnefndar segir að kvikmyndin sé sérlega frumleg með rætur í kjarnyrtum húmor Íslendingasagnanna. Þá segir að leikstjórinn hafi djúpann skilning á frumkröftum hrossa og manna.
„Með því að nota augnaráð skepnu sem eitt helsta sjónarhornið til að endurspegla grátbroslega hegðun manna fær „Hross í oss“ sérstæðan ljóðrænan blæ en líka svartan, spaugsaman tón. Benedikt Erlingsson leikstjóri fléttar saman kraftmikið myndmál, klippingu og tónlist þannig að myndin sjálf verður eins og náttúruafl.“
Hross Benedikts kepptu við kvikmyndirnar Nymphomaniac frá Danmörku, Steinsteypunótt frá Finnlandi, Blind frá Noregi og Turist frá Svíþjóð, en þá síðastnefndu má sjá í Bíó Paradís um þessar mundir.