Erlendur Sveinsson, nýráðinn forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, segist á Fésbókarsíðu sinni sjá fyrir sér þrjú höfuðverkefni í starfi sínu; að koma safninu inní stafrænu öldina, að miðla safnkostinum sem best til þjóðarinnar og tryggja að ungt fólk taki við merkinu þegar hann láti af störfum.
Yfirlýsing Erlendar er svona:
Það er kannski ekki úr vegi að fylgja því eftir, áður en maður fer í háttinn, sem komið hefur fram í netútgáfum fjölmiðla í dag, að ég verð skipaður forstöðumaður Kvikmyndasafnsins til næstu 5 ára frá og með 1. október n.k.
Ég hef reyndar gegnt þessu starfi undanfarin tvö ár sem settur forstöðumaður og svo var ég einn með safnið fyrstu 7 árin frá 1979 að telja í 50% starfi. Starfaði síðan á gólfinu 2002 – 12 einnig í 50% starfi enda skiptur á milli kvikmyndagerðar og safnastarfs. Ég er auðvitað mjög þakklátur menntamálaráðherra og ráðuneyti hans fyrir það traust sem mér er sýnt og mun reyna að rísa undir því.
Ég sé fyrir mér þrjú höfuðverkefni:
1) Að lóðsa safnið með mínu góða samstarfsfólki inn í stafrænu öldina því með vissum hætti má segja að safnið sé nú statt á nýjum byrjunarreit á öllum sviðum þess í umróti stafrænu byltingarinnar
2) Að finna nútímalegar leiðir fyrir miðlun safnskostsins, sem þjóðin öll getur notið
3) Að tryggja að ungt fólk verði komið til starfa hjá safninu og í stakk búið að halda merkinu á lofti þegar við eldri starfsmenn þess látum af störfum.
Jafnframt þessu þarf að efla vitund þjóðarinnar fyrir því að Kvikmyndasafn Íslands er sú stofnun í hennar eigu sem er ætlað það viðamikla verkefni að varðveita og miðla arfleifð hennar í lifandi myndum. Það er gríðarlega stórt viðfangsefni á góðu pari með verkefnum höfuðsafna landsins.