Hross í oss hlaut tvenn verðlaun á nýyfirstaðinni kvikmyndahátíð í Aubagne í Suður-Frakklandi, en á hátíðinni er aðaláherslan lögð á tónlist og hljóðvinnslu í kvikmyndum. Myndin hefur því hlotið alls 21 verðlaun hingað til, þar af sex Eddur.
Vísir segir frá og spjallar við tónskáld myndarinnar, Davíð Þór Jónsson:
„Það er náttúrulega rosalega gaman ef tónlistin vekur eftirtekt því hún er stór hluti af myndinni, sem er frekar óhefðbundin því að það er lítið talað í henni,“ útskýrir Davíð Þór.
„En þetta samstarf var sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að þetta er fyrsta stóra myndin hans Benedikts og ég hef aldrei samið músík áður fyrir mynd í fullri lengd – og ég er mjög stoltur af afrakstrinum. Velgengni er afstætt hugtak. Okkur langaði að skapa sögu og búa hana til alveg óháð því hvort hún yrði sýnd tvisvar eða 2.000 sinnum, en það er auðvitað dásamlegt að hún veki athygli og fái viðurkenningu fyrir það sem hún er.“
Sjá nánar hér: Vísir – Davíð Þór segir velgengni afstætt hugtak.