Viðhorf | Bíó Paradís og baráttan um Bæjarbíó

Ásgrímur Sverrisson ritstjóri Klapptrés og dagskrárstjóri Bíó Paradísar frá upphafi og fram til 2013 skrifar í miðil sinn 14. mars s.l. um mikilvægi þess að Kvikmyndasafn Íslands flytji sýningar sínar í Bíó Paradís. Tilefnið er umræðan um Kvikmyndasafnið og framtíðarrekstur Bæjarbíós.

Málið þaulrætt

Ásgrímur skrifar: „Bíó Paradís var frá upphafi hugsað sem sameiginlegur vettvangur fyrir hverskyns kvikmyndasýningar sem liggja utan hins hefðbundna meginstraums. Áherslurnar snúast um að undirstrika og hylla fjölbreytni kvikmyndamenningar. Safnabíó Kvikmyndasafns Íslands á svo sannarlega heima í þeim ranni“.

Einkaaðilar geta vissulega stofnað sinn sameiginlegan vettvang eða rann fyrir hverskyns kvikmyndasýningar sem liggja utan hins hefðbundna meginstraums en þeir geta ekki gefið sér að Kvikmyndasafn Íslands, sem er stofnun í eigu þjóðarinnar með víðfeðmt hlutverk langt út fyrir sýningahald og hefur byggt upp sérhæfða aðstöðu til kvikmyndasýninga í Bæjarbíói með ærnum tilkostnaði, flytji sýningarhald sitt í Bíó Paradís.

Vísast gekk Bíó Paradísarfólki gott eitt til þegar það bauð Kvikmyndasafni Íslands faðmlag sitt á sínum tíma en tilboðið var þaulrætt bæði á vettvangi Kvikmyndasafns Íslands og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins en reyndist óframkvæmanlegt af margvíslegum ástæðum. Kvikmyndasafnið fagnar hins vegar tilkomu Bíós Paradísar, óskar því alls góðs í starfi þess og er tilbúið að veita því þá aðstoð sem er á færi þess að veita.

Það kemur ekki fram í grein Ásgríms, hvort hann tali nú fyrir hönd Bíós Paradísar en Ásgrímur sér ástæðu til að dusta rykið af hugmynd sinni um að Kvikmyndasafnið flytji sýningar sínar inn á Hverfisgötuna nú þegar safnið og menntamálaráðuneytið er í viðkvæmu samningarferli við Hafnarfjarðarbæ um áframhald kvikmyndasýninga í Bæjarbíói.

Úr Bæjarbíói.
Úr Bæjarbíói.

Flutningur í Bíó Paradís er hins vegar ekki á dagskrá hvað svo sem líður breytingum á rekstri Bæjarbíós, því rökin gegn flutningi sýningarhaldsins yfir á Hverfisgötuna hafa ekkert breyst og breytast ekki hver svo sem verður niðurstaðan í Bæjarbíósmálinu. En þar sem senator Cato hefur nú rumskað eina ferðina enn, Rómverjinn, sem endaði allar ræður á tillögu sinni um að Karþagó skyldi lögð í eyði, og spurningin hvers vegna Kvikmyndasafnið flytur ekki sýningarstarfsemi sína í Bíó Paradís virðist ennþá vera mörgum hugleikin þá tek ég boði Klapptrésins um að svara grein Ásgríms.

Bíó Paradís virðist þrífast ágætlega án Kvikmyndasafns Íslands

Ásgrímur skrifar: „Heimili kvikmyndanna á Íslandi er við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar er nefnilega að finna kvikmyndahús sem kallast Bíó Paradís. Það sérhæfir sig í að sýna nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum sem og hverskyns eldri myndir erlendar sem innlendar, auk þess að hýsa kvikmyndahátíðir og standa fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum. Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara og fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein“.

Af lýsingunni á starfseminni sem þarna fer fram má ráða að hún sé hin blómlegasta og þrífist ágætlega án aðkomu Kvikmyndasafns Íslands. Er það þá vegna umhyggju fyrir Kvikmyndasafninu og áhorfendum þess sem ofangreind krafa er uppi? Má vera. Ásgrímur er hér að lýsa viðhorfum, sem við tveir höfum oft rætt saman um en engu að síður þá er það ekki í verkahring Bíó Paradísar eða Ásgríms að hlutast til um rekstur Kvikmyndasafns Íslands, ekki fremur en að einkaaðilar segi Þjóðminjasafninu eða Listasafni Íslands fyrir verkum varðandi sýningarhald þessara stofnana.

Menningar- og listasöfn ríkisins eru í þjóðareign og lúta lögum og reglugerðum og ákvarða sjálf á þeim grunni hvernig sýningarhaldi skuli háttað. Almenna reglan er sú að kvikmyndasöfn gangast fyrir sýningum sínum á eigin vettvangi (on the premises) og það er m.a. á þeim grunni sem þau hafa heimildir til að sýna safnkost sinn og aðfengnar lánskvikmyndir frá systursöfnum. En þá þarf aðstaða að vera fyrir hendi til að sýna filmur af tveimur 35mm kvikmyndasýningavélum. Með því að Bæjarbíó hefur fram til þessa verið undir stjórn Kvikmyndasafnsins og er eina kvikmyndahúsið á landinu sem varðveist hefur í upprunalegri mynd og er því stórmerkilegt frá kvikmynda- og byggingasögulegu sjónarmiði auk þess sem þar er enn hægt að sýna af tvemur 35mm sýningarvélum hefur verið hægt að skýrgreina þá aðstöðu sem eiginn vettvang Kvikmyndasafns Íslands.

Ásgrímur skrifar að „sjónarmið yfirmanna safnsins varðandi þetta mál lúti meðal annars að sögulegu gildi Bæjarbíós sem elsta varðveitta kvikmyndahús landsins“. „Ég hef skilning á þeim viðhorfum en er þeim ósammála. Það er ekki nóg að setja upp fína dagskrá (sem vissulega hefur almennt tekist þrátt fyrir þröngar fjárhagslegar skorður) – það verður einnig að hafa sýningarnar aðgengilegri almenningi“.

Það er gott til þess að vita að það sé ánægja með dagskrá Kvikmyndasafnsins og gæti verið ástæða til að minna á sýningaskrár safnsins sem birtar eru á heimasíðu þess í því sambandi. Ég bendi sérstaklega á inngangsgrein skrárinnar fyrir veturinn 2011-12 þar sem birt er hugleiðing um stefnu Kvikmyndasafnsins í sýningarmálum.

Sýningarsalur Bæjarbíós.
Sýningarsalur Bæjarbíós.

Tugmilljónir í endurbætur á Bæjarbíói

Ásgrímur horfir framhjá þeirri staðreynd að upprunalega flutti Kvikmyndasafnið starfsemi sína í Hafnarfjörð vegna þeirra yfirráða sem það fékk yfir Bæjarbíói við hliðina á hentugu húsnæði sem það fékk fyrir aðra þætti starfsemi sinnar en það var hið aflagða húsnæði Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Safnið hefur síðan varið tugmilljónum króna í að endurgera þetta sögufræga kvikmyndahús sem fellur einkar vel að þörfum þess vegna þess einfaldlega að Bæjarbíó er eina kvikmyndahúsið á landinu sem uppfyllir öll skilyrðin sem þurfa að vera til staðar til að Kvikmyndasafn sem tekur sig alvarlega og er í Alþjóðasambandi kvikmyndasafna (FIAF) geti sinnt sýningarhaldi utan síns eigin vettvangs.

21 milljón króna fjárfesting í lánshúsnæði er ekki sjálfgefin þegar þess er gætt að jafnframt þurfti að verja háum fjárhæðum í endurbyggingu Bæjarútgerðarhúsnæðisins fyrir aðra þætti starfseminnar sem seinna var rifið ofan af Kvikmyndasafninu vegna umdeildra byggingaframkvæmda í miðbæ Hafnarfjarðar. Ekki hefði verið farið út í þessar fjárfestingar nema á grundvelli trausts og alvöru framtíðarsýnar fyrir hönd Bæjarbíós, Kvikmyndasafnsins og Hafnarfjarðarbæjar enda var þá samið til 15 ára. Allt tal nú um samning til þriggja ára er því hálf hjárænulegt í þessu sögulega ljósi sérstaklega vegna þess hve þung áhersla er lögð á örlætið sem í þeim stutta samningstíma felst. Kvikmyndasafn Íslands þurfti sumsé að treysta á framtíðarsýn Hafnarfjarðarbæjar sem var auðvitað ákveðinn áhætta þá því bærinn lét það viðgangast að hitt kvikmyndahús bæjarins, hið sögufræga Hafnarfjarðarbíó, var látið drabbast niður þar til hægt var að rífa það.

Bíósýningar kvikmyndasafna ekki í hagnaðarskyni

Ekkert kvikmyndasafn í veröldinni myndi láta sér detta í hug að fá inni með sýningarstarf sitt í fjölsala bíói á kvikmyndahúsamarkaði. Kvikmyndasýningum í hagnaðarskyni má ekki blanda saman við kvikmyndasafnssýningar því sýningar kvikmyndasafna eru þess eðlis og skiptir þá ekki máli þótt Bíó Paradís skýrgreini sig utan við meginnstrauminn.

Það þarf að vera yfir allan vafa hafið að bíósýningar kvikmyndasafna séu ekki skipulagðar í hagnaðarskyni heldur séu „non-commercial“ menningarviðburðir. Þau bjóða upp á andrúmsloft sem er víðsfjarri markaðsbíóhúsum, sem bjóða upp á poppkorn og kók en m.a.s. Bíó Paradís fer ekki varhluta af því og verja einum 10 mínútum í auglýsingar áður en sýningar hefjast og er þá hálfdrættingur á við hin stóru húsin. Að auki er bíóaðstaða kvikmyndasafna vinnustaður það sem kvikmyndir eru prufukeyrðar, endurgerðir og tónsettar myndir skoðaðar og dagskrár sem Kvikmyndasafnið útbýr sjálft á diskum til sýningar prófaðar. Þetta er meginástæðan fyrir því að Kvikmyndasafn Íslands getur ekki haft sýningar sínar í Bíó Paradís. Og þess vegna þótti það alveg kjörið á sínum tíma að ekki væri nema örstutt göngufæri á milli aðstöðu safnsins í húsi Bæjarútgerðarinnar í Hafnarfirði og Bæjarbíós.

Sýningaraðstaðan í Bæjarbíói er í samræmi við þá aðstöðu sem Finnar bjóða upp á en kvikmyndasafn þeirra ræður yfir kvikmyndahúsinu Orion sem er álitið fegursta kvikmyndahúsið í Helskinki byggt í Art Deco stíl árið 1927. Það tekur um 216 manns í sæti en Bæjarbíó 250 manns, stofnað árið 1942 og tekið í notkun 1945. Finnska safnið sýnir í sínu einsalsbíói klassísk og sögulega mikilvæg kvikmyndaverk á upprunalegu tungumáli þeirra. Sjá hér og hér.

Bíói Finnanna er lýst þannig af bíógesti í enskri þýðingu:

This is not a multiplex. They do not sell pop corn. They do not have any Dancing games in the lobby. This is a film theatre and it is about movies.

Orion is a film theatre owned by finnish film archives. So it is not commercial cinema but cinema for true film lovers. Check the programme from the website.

Usually there are lot of classics scheduled and maybe some new stuff from lesser known film countries. Almost every season there is also a great selection of cult films shown: giallo, spaghetti, horror etc.

I love this place. The film archive curates their selections, the theater is an absolute treasure of architecture, and there’s a bit of a regular crowd feel. We regularly plan months in advance to catch some of their selections!

Skemmtileg lýsing sem fellur vel að stefnuskrá Kvikmyndasafnins fyrir sýningar þess í Bæjarbíói þar sem ekki er selt poppkorn eða annað sælgæti, sýningar hefjast nákvæmlega á auglýstum tíma með því að fortjald er dregið frá sýningartjaldinu og auglýsingar eru engar.

Það sem ræður úrslitum er að slík söguleg kvikmyndahús rekin af kvikmyndasöfnum er hægt að skýrgreina sem þeirra vettvang (premises). Þess vegna eru þau gildur sýningarstaður þegar kemur að því að fá kvikmyndafilmur lánaðar frá systursöfnum hafi þau jafnframt yfir réttum sýningarbúnaði að ráða.

Hafnarfjarðarbíó og menningarsöguleg stórslys

Það munaði aðeins hársbreidd að Kvikmyndasafn Íslands eignaðist Hafnarfjarðarbíó sem í staðinn var látið drabbast niður í Hafnarfirði þar til það var rifið eins og Cinema Paradiso í kvikmyndinni. Sama gerðist með Fjalarköttinn sem er eitt af stórslysum menningarsögu Íslands en þá var rætt um að það færi undir verndarvæng Kvikmyndasafns Íslands. Ef menn stíga nú skref sem valda því að kvikmyndasýningar leggjast af í Bæjarbíói er ekki gott að segja hver verða örlög þessa elsta kvikmyndahúss landsins sem sýnir með upprunalegu verklagi og hefur ekki verið breytt vegna viðburðaþarfa eins og á við um Gamla Bíó, Tjarnarbíó og Austurbæjarbíó.

Eins og tæpt hefur verið á þá þarf að vera hægt að sýna kvikmyndir, bæði lánsmyndir og myndir í vörslu viðkomandi safns af tveimur 35mm sýningavélum, séu þær ekki til skannaðar og útbúnar á stafræna miðla eins og diska og DCP. Þessu skilyrði er fullnægt í Bæjarbíói en hvergi annars staðar á Íslandi. Upprunalegar hugmyndir Bíó Paradísstofnenda um að sýningarvélarnar í Bæjarbíói yrðu teknar niður og fluttar inn á Hverfisgötuna voru og eru með öllu óframkvæmanlegar m.a. af hönnunarástæðum í sýningarklefa Bíós Paradísar. Sömuleiðis hefði það verið glapræði að skilja þá miklu fjárfestingu í endurreisn Bæjarbíós eftir (óuppreiknuð 21 milljón). Hér við bætast fjölmörg praktísk atriði sem ekki er ástæða til að telja upp í þessum punkti.

Höfum í huga að við lifum á Amazonöld, Netflixöld, 42-50 tommu flatskjáaöld. Liðin er sú tíð þegar kvikmyndasöfnin voru eini vettvangur kvikmyndaunnenda til að sjá eldri sögulegar kvikmyndir og kvikmyndaklassíkina. Skilyrðin til að horfa á slíkar myndir heima í stofu eru orðin það góð að það þarf að vera ærin ástæða fyrir fólk að standa upp úr sófanum frá mynd sem það á uppi í hillu, segjum Citizen Kane, til að fara í bíó til að horfa á hana á bíótjaldi. Sjálfur eignaðist ég Tokyo sögu Yasojiro Ozu á dögunum útgefna á Blu-Ray diski af breska kvikmyndasafninu (BFI). Þessa mynd færi ég ekki til að horfa á af DCP spilurum í markaðsbíói en ég myndi fara að horfa á hana í hvert skipti sem hún yrði sýnd af 35mm filmu í Bæjarbíói og ég myndi beita öllum ráðum til að fá aðra til að taka þátt í þeirri upplifun með mér.

Ekkert status quo

Ásgrímur skrifar að það hafi verið vonbrigði að Kvikmyndasafnið hafnaði tilboði Bíó Paradísarfólks um samstarf á sínum tíma. „Í framhaldi samdi safnið við Hafnarfjarðarbæ um áframhaldandi afnot af Bæjarbíói en bæjaryfirvöldum virðist enn (skiljanlega) umhugað að nýta húsið betur. Því er þessi staða komin upp nú“.

Það ætti nú að blasa við hvers vegna þetta var ekki hægt. Hitt er svo ekki rétt hvað varðar stöðuna sem nú er upp komin. Í fyrsta lagi hafa alltaf verið einhverjir viðburðir aðrir en kvikmyndasýningar í Bæjarbíói, þótt óviðunandi aðstaða baksviðs hefði letjandi áhrif þar á. En samkvæmt þeim samningstexta sem Hafnarfjarðarbær og Kvikmyndasafn Íslands höfðu náð samkomulagi um í desember s.l. var gert ráð fyrir mikilli aukningu á starfsemi í bíóinu frá því sem verið hefur, bæði fjölda kvikmyndasýninga og viðburða. Hafnarfjarðarbæ hefur tekist að slá einhverjum þokuhjúp utan um þennan samningstexta þrátt fyrir hina opnu stjórnsýslu og talar eins og þessi texti hafi aldrei verið til.

Kannski vegna þess að einhverjir í hópnum tóku sér fyrir hendur að skera þennan texta niður við trog og kynna á bæjarráðsfundi sem það samkomulag sem bæjarráð skyldi samþykkja og fela síðan bæjarstjóra að senda það til ráðherra. Þegar síðan ráðherra metur þennan nýja texta bæjarins og leggur til að menn haldi sig við fyrri texta er því lýst sem hótunum.

En hvað á að segja um það ráðslag Hafnarfjarðarbæjar að slá þennan samning út af borðinu óforvarandis, samþykkja síðan á eigin fundum nýjan texta og senda hann án vitundar Kvikmyndasafnsins inn í ráðuneyti og ætlast til að menn kokgleypi hann þar: „Give them an offer they can’t deny“ eins og segir í Godfather.

Samkvæmt desembersamningstextanum hefði Hafnarfjarðarbær fengið öllu því framgengt sem hann hyggst ná fram með hjálp svokallaðra áhugasamra aðila um viðburðahald í bíóinu og að auki áframhaldandi kvikmyndasýningar. Það er því alrangt að tala um status quo í þessu máli. Það þarf engan að undra að kvikmyndasýningar í Bæjarbíói leggist af ef Kvikmyndasafnið verður hrakið úr bíóinu með innkomu nýrra rekstraraðila. Þá verða engin tæki til að sýna af og engar filmur til að sýna. Það felst engin hótun í því að benda mönnum á það. Sýningavélarnar eru safngripir með safnnúmerum sem hljóta að enda á safninu flytjist starfsemi þess úr bíóinu og myndir sem sýndar eru af þessm vélum eru líka safngripir.

Fleiri en 101 fólk sem sækir menningarviðburði

Fram kemur í grein Ásgríms að „[lunginn] af þeim sem áhuga hafa á [því] efni sem Kvikmyndasafnið sýnir sé í 101 Reykjavík. Sams konar viðhorf komu einnig fram hjá Agli Egilssyni Kiljuumsjónarmanni á fésbókarsíðu Ásgríms á dögunum. Nú er spurningin hvort þeir skoðanabræður hafi rétt fyrir sér? Gáum að því að það eru t.d. fleiri en 101 fólk sem stundar leikhús höfuðborgarsvæðisins og tónlistarviðburði Hörpu, þmt. sinfóníutónleika og óperur, já tónleika Lúðrasveitar Hafnarfjarðar. Þess vegna er rík ástæða til að setja spurningamerki við fullyrðinguna um að kvikmyndaáhugafólk fyrirfinnist ekki í Kópavogi eða Garðabæ eða Hafnarfirði. Þyrfti ekki að rannsaka þessa fullyrðingu?

Verði ekki af samkomulagi milli Hafnarfjarðar og ríkisins um áframhaldandi kvikmyndasýningar þá leggjast þær af í Bæjarbíói eins og fram hefur komið en þær flytjast ekki inn í Bíó Paradís.

Kvikmyndasafnið mun þá færa til áherslur í starfi sínu og einbeita sér að öðrum þáttum sem orðið hafa útundan vegna hins viðvarandi ófriðar út af Bæjarbíói. Það þarf að sinna nýtilkomnum kröfum um móttöku á stafrænum kvikmyndum, láta framkvæma stafrænar gæðayfirfærslur, það þarf að stórefla skráningarstarf sitt og rannsóknir á ástandi safnkostsins.

Kvikmyndasafnið mun halda áfram á þeirri braut að gefa öldrunarstofnunum og menningarstofnunum úti á landsbyggðinni kost á að njóta kvikmynda úr fórum safnsins, sem það hefur yfirráð yfir eins og byrjað var á í auknum mæli fyrir tveimur árum samhliða því að vinna að uppbyggingu eigin sýningaraðstöðu í húsakynnum sínum.

Það gæti þá farið svo eftir allt saman að það yrði hlutskipti Kvikmyndasafns Íslands að viðhalda kvikmyndasýningum í Hafnarfirði er fram líða stundir ef svo slysalega tekst til, sem við vonum svo sannarlega að ekki verði, að Kvikmyndasýningar safnins leggist af í Bæjarbíói. En færi svo þá hefur bæjaryfirvöldum í Mekku kvikmyndasýninga á Íslandi tekist að vinna það afrek að leggja að velli tvö af sögufrægustu kvikmyndahúsum landsins.

Erlendur Sveinsson
Erlendur Sveinsson
Höfundur er forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR