Sýningar á Hross í oss Benedikts Erlingssonar hefjast í dag í norskum kvikmyndahúsum. Borghild Maaland, gagnrýnandi Verdens Gang, kallar myndina litla perlu, kröftuga sögu frá Íslandi um menn og dýr og óhamda náttúru.
Maaland segir m.a.:
„Yfir það heila býður myndin uppá mörg snörp og óvægin augnablik. Hestar og menn týna tölunni á miskunnarlausan hátt og án málalenginga en jafnvægi og gagnkvæm virðing ríkir milli manna, dýra og náttúru í frásögninni. Nostrað er við smáatriði og óvæntri hörku blandað saman við lauflétt spaug meðan andi girndar og mökunar svífur ávallt yfir. Harmi og spaugi er útdeilt af hárfinni nákvæmni og tónlistin undirstrikar einnig vel hið fjölþætta persónugallerí. Myndin er falleg og fjörug með leiftrandi og smitandi húmor á fullu stími.“