Sýningar á Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson hefjast í dag í norskum kvikmyndahúsum.
Aftonbladet kallar myndina „sérviskulega sjarmasprengju með fullt af svörtum húmor og óvæntum fléttum.“ Gagnrýnandinn, Maria Fosheim Lund, bendir á að myndin hafi slegið í gegn bæði hjá gagnrýnendum og áhorfendum á hátíðum víða um heim að undanförnu og „því séu góðar líkur á að mörgum muni líka betur við myndina en mér.“
Lund segir myndina brokkgenga og þegar frásögnin höktir sé athyglinni beint að ægifögru landslaginu og fallegum hestum. Mest áhersla sé lögð á persónu Kolbeins (Ingvar E. Sigurðsson) og kaflinn þegar drukkinn maður sundríður útí rússneskan togara til að útvega sér ódýrt áfengi sé frábær en aðrar persónur séu síður áhugaverðar.
Í niðurlagi umsagnar sinnar segir Lund:
„Líkt og margar íslenskar myndir spilar Hross í oss upp þá mynd sem Íslendingar vilja gjarnan gefa af sér sem sérstætt fólk sem búi í alltumlykjandi náttúru. Þessar sjálfmiðuðu og sjálfumglöðu áherslur hefur einnig mátt finna í mörgum norskum myndum en sem betur fer eru þessar áherslur víkjandi. Íslenskar kvikmyndir ættu að gera það líka.“