Óskar Jónasson segir frá tilurð og gerð Sódómu Reykjavík í stuttu spjalli við Kvikmyndir.is. Hér er stutt brot:
Hver er þín skýring á því að þetta er þekktasta kvikmynd Íslands?
Það er erfitt að segja, sennilega er það gálgahúmorinn. Þegar ég fékk ekki styrkinn hjá Kvikmyndasjóðnum, þá ákvað ég að gefa skít í hið opinbera og framleiða myndina eftir öðrum leiðum. Þá fór allt “velsæm“ út um gluggann og ég skrifaði bara nákvæmlega það sem mér datt í hug. Í þeirri yfirferð komu atriði eins og þegar Brjánsi stríðir Ella í kyndiklefanum, allt talið um vændið og klámmyndirnar og samtöl sem mér dytti ekki í hug að skrifa í dag. Eftir að ég byrjaði að eignast börn, hefur þetta allt orðið settlegra hjá mér. En eins og segi, þá fékk myndin framleiðslustyrk þannig að ekki virðist orðbragðið hafa farið fyrir brjóstið á ráðgjöfum Kvikmyndasjóðs. Síðan hjálpar það áreiðanlega myndinni að margt af þessu er byggt á raunverulegum atburðum, persónulegri reynslu og talsverðri innsýn inn í skemmtanaheiminn í Reykjavík á þessum árum. Þekking á viðfangsefninu er nauðsynleg fyrir handritshöfundinn.
Viðtalið í heild má lesa hér: VIÐTAL: Óskar Jónasson – Kvikmyndir.is.