Hross í oss Benedikt Erlingssonar brokkar klyfjum hlaðin frá Tallinn í Eistlandi en þar hlaut myndin þrenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni Tallinn Black Nights sem lauk í dag. Verðlaunin voru fyrir bestu fyrstu mynd leikstjóra, bestu myndatöku (Bergsteinn Björgúlfsson) og ennfremur hlaut hún verðlaun alþjóðasamtaka gagnrýnenda, FIPRESCI, sem besta mynd hátíðarinnar.
Óhætt er að segja að myndin hafi farið sigurför um heimsbyggðina alveg frá því hún brá sér fyrst út fyrir landsteinana undir lok september. Þá var för heitið til San Sebastian á Spáni þar sem myndin hlaut leikstjórnarverðlaunin. Þaðan var skeiðað til Tokyo í seinnihluta október þar sem hún vann einnig leikstjórnarverðlaunin. Báðar hátíðir eru meðal virtustu kvikmyndahátíða heims.
Það er leitun að kvikmynd sem hefur sópað til sín jafnmörgum verðlaunum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum á árinu. Alls hefur myndin hlotið 7 verðlaun á 5 hátíðum hingað til. Næsta stopp er Los Angeles, en myndin er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna í flokki erlendra mynda. Tilnefningar verða kunngjörðar þann 16. janúar næstkomandi.
Eftir það keppir hún um „Drekann“ verðlaun stærstu hátíðar á Norðurlöndunum sem hefst í Gautaborg seinnipart janúar.