Ný bók: Heimspeki og kvikmyndir eftir Arnar Elísson

heimspeki og kvikmyndir - kápaÚt er komin bókin Heimspeki og kvikmyndir eftir Arnar Elísson kvikmyndafræðing. Bókin er ætluð til kennslu í framhaldsskólum og fæst ókeypis í þrennskonar formi (pdf, iBook og ePub) hér.

Að sögn Arnars er markmið bókarinnar að styrkja sjálfstæði nemandans og tengja efni áfangans við raunveruleg og hagnýt dæmi í því samfélagi sem hann býr í. Bókin á að gera nemandann hæfan til þess að takast á við ýmis verkefni, ígrundanir og námsefni.

Arnar segir jafnframt að bókin sé ekki ætluð sem alhliða kennslubók í þeim heimspekilegu álitamálum sem hún fjallar um. Henni er einungis ætlað að vera leiðarvísir, hefja umræður, leggja til lesefni og bera upp spurningar sem leiða til betri þekkingar.

Margskonar hliðar kvikmyndarinnar

Heimspeki og kvikmyndir er skipt í fjóra hluta:

Í fyrsta hlutanum er fjallað um notkun kvikmynda í námi, hvernig þær standa sem listgrein í ljósi annarra lista og hvernig heimspekingur getur nýtt sér kvikmyndamiðilinn sem tæki til hugsunar.

Í öðrum hlutanum er fjallað um átta kvikmyndir sem endurspegla álitamál í heimspeki, siðfræði og fagurfræði.

Þriðji hluti bókarinnar samanstendur af fjórum köflum. Sá fyrsti er ítarleg umræða um hlutverk kvikmyndaskoðandans og kvikmyndagagnrýnandans. Annar kaflinn er umræða um stöðu kvikmyndamiðilsins í listaheiminum, um hugtakið list og þýðingu þess og hvað gerir hlut að listaverki. Þriðji kaflinn er umræða um undirstöðuatriði kvikmyndamiðilsins, hvernig bíómyndir þurfa að lúta ákveðnum lögmálum sem einkenna einnig málaralist um framsetningu á dramatískum atburðum og sá fjórði er umræða um hlutverk kvikmyndaskoðandans og kvikmyndagagnrýnandans.

Eftirmálinn er síðasti kafli bókarinnar og samanstendur af leiðbeiningum handa kennurum sem vilja nýta efni bókarinnar í kennslu. Leiðbeiningarnar og þau hollráð sem eru gefin í bókinni miðast við að kennarar geta kennt efnið að hluta til eða í heild sinni við flestar hugvísindagreinar.

Bókin er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og RANNÍS.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR