Bíó Paradís | Camille Claudel 1915
Leikstjóri: Bruno Dumont
Handrit: Bruno Dumont
Aðalhlutverk: Juliette Binoche, Jean-Luc Vincent, Emmanuel Kauffman
Lengd: 95 mín.
Frakkland, 2013
Camille Claudel 1915 segir söguna af því þegar Camille Claudel, sem var virtur myndhöggvari í Frakklandi undir lok 19. aldar og systir skáldsins Paul Claudel sem og ástkona myndhöggvarans Auguste Rodin, var vistuð á geðsjúkrahæli af fjölskyldu sinni. Myndin gerist á nokkura daga tímabili á meðan Claudel er að bíða eftir heimsókn frá bróður sínum.
Hér á ferðinni önnur kvikmyndin sem gerð hefur verið um Claudel en hin kom út árið 1988 og var öllu hefðbundnari ævisögumynd sem fór yfir stærri hluta af ævi Claudel (hún var þar leikin af Isabelle Adjani) á meðan þessi getur tæplega talist vera ævisögumynd, heldur er hún öllu heldur eins konar sálfræðilegt portrett af einni persónu (í raun tveimur þar sem við fáum einnig aðeins að kynnast bróður hennar í seinni hlutanum og hans hlið á málinu) sem var til í raunveruleikanum.
Leikstjórinn Bruno Dumont er hér að kljást við stórar spurningar. Í myndinni er, beint og óbeint, verið að vekja upp spurningar um mannlegt eðli, eðli hins geðsjúka og eðli listamannsins og hvernig þetta getur allt runnið saman. Claudel er vistuð á geðsjúkrahúsi þar sem hún er umkringd konum sem eru ýmist verulega þroskaskertar eða jafnvel einhverfar á meðan hún sjálf er hvorugt, Dumont er lítið að útskýra hvers vegna hún sé vistuð þarna en á þessum tíma voru vissulega allir geðveikir eða geðfatlaðir aðilar settir undir sama hatt.
Einmanaleiki og einangrun spila stórt hlutverk í þessari mynd. Claudel er bæði einangruð frá umheiminum og öðru fólki og um leið einangruð í sjúkrahúsinu þar sem hún sker sig úr frá hinum þar og heldur sig útaf fyrir sig. Það má segja að myndin gerist að mestu í hausnum á Camille Claudel, áhorfandinn fær sterka tilfinningu fyrir þjáningu hennar. Á meðan það er klárt að Claudel á við vandamál að stríða þá mætir hún miklu skilningsleysi, dæmi um það er atriði þar sem hún opnar sig fyrir yfirmanninum á hælinu sem gerir ekkert nema segja “Flott, sjáumst næst!”.
Camille Claudel 1915 er að mörgu leyti mjög athyglisverð og vönduð mynd og klárt mál að Bruno Dumont veit hvað hann er að gera. Fyrir utan að Juliette Binoche sýnir stórleik, eins og vanalega, þá tekst Dumont að ná góðri frammistöðu úr geðfötluðum einstaklingum sem varla hefur verið auðvelt að leikstýra. Myndin er einnig mjög áferðarfalleg og andrúmsloftið mjög svo sannfærandi, engu að síður er eins og eitthvað vanti og myndin nær ekki alveg þeim hæðum sem hún ætlar sér.
Það er erfitt að setja fingurinn hvað það er nákvæmlega sem vantar en að hluta til er það einfaldlega að myndin er ekki beint að segja neitt nýtt eða sérlega framúrskarandi eða gera það á mjög eftirminnilegan máta, en þá mætti um leið segja að það sé ekki endilega það sem myndin er að reyna að gera.
Að hluta til er skortur á vitneskju um viðfangsefnið líka vandamál þar sem undirritaður þekkti lítið til Claudel áður en hann sá myndina en hún virðist gera ráð fyrir að áhorfandinn hafi einhverja vitneskju um hana (maður fær smá sögukennslu í byrjun en þar er einungis stiklað á stóru). Það er erfitt að fá mjög mikla samkennd með Claudel þar sem maður veit lítið um hana lengst af, hún er bara enn einn listamaðurinn sem hefur misst vitið, þótt Binoche takist mjög vel að hverfa inn í persónu Camille Claudel.
Myndin er líka ansi hæg, það er vissulega stílbrigði hjá Dumont og endurspeglar andlegt líf Claudel í hælinu, en gerir það líka að verkum að myndin verður full eintóna og endurtekningarsöm á köflum. Dumont heldur stundum þótt þegar sé ljóst hvað er verið að segja. Hann á það líka til að segja hlutina beint út frekar en að segja þá sjónrænt eða koma þeim á framfæra á listrænni máta, sem gerir það að verkum að myndin verður svolítið augljós á köflum og því ekki alveg eins sterk og hún gæti verið.