Það var gaman að sjá tæknilega endurbætta útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói í gær. Þetta er allavega í fjórða skiptið sem ég sé myndina (síðast fyrir fáeinum árum) og enn tekst henni að koma manni á óvart. Hún hefur einfaldlega elst mjög vel, er afar nútímaleg, bæði hvað varðar efnistök og nálgun, sem og merkilegur vitnisburður um samtíma sinn.
Í tilefni sýningar á endurbættri Morðsögu Reynis Oddssonar birti ég nú viðtal sem ég tók við leikstjórann fyrir tímaritið Land & syni haustið 1997. Umrætt viðtal var tekið vegna endursýningar myndarinnar í Háskólabíó í tilefni tuttugu ára afmælis hennar.
Kvikmyndasafn Íslands sýnir endurbætta stafræna útgáfu af Morðsögu (1977) Reynis Oddssonar í Háskólabíói þann 2. nóvember kl. 18. Sýningin er í tilefni 110 ára afmælis kvikmyndasýninga á Íslandi. Á undan verður sýnd 110 ára gömul stutt mynd, Þingmannaförin, um för íslenskra alþingismanna til Kaupmannahafnar árið 1906, en hún var hluti af sýningardagskrá hins eldra Gamla bíós í Grjótaþorpinu þegar sýningar hófust þar 2. nóvember umrætt ár. Öllum er heimill aðgangur á meðan húsrúm leyfir.