Hrútar Gríms Hákonarsonar hlaut alls 11 Edduverðlaun á Hótel Hilton Reykjavík Nordica í gærkvöldi, þar á meðal sem kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn, handrit, aðalhlutverk karla, aukahlutverk karla, kvikmyndatöku og klippingu. Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð hlaut þrjár Eddur; fyrir leikið sjónvarpsefni ársins, tónlist og brellur.
Tilkynnt var um tilnefningar til Edduverðlaunanna 2016 á blaðamannafundi í Bíó Paradís fyrr í dag. Hrútar fær flestar tilnefningar, 13 talsins. Fúsi og Þrestir fylgja fast á eftir með 12 og 11 tilnefningar hvor. Þáttaröðin Réttur fær 8 tilnefningar og Ófærð fær fjórar.
Byrjað er að taka á móti kvikmynda- og sjónvarpsverkum vegna Eddunnar 2016 sem haldin verður um mánaðamótin febrúar/mars. Frestur til að senda inn verk rennur út á miðnætti fimmtudaginn 7. janúar, 2016. Gjaldgeng eru verk sem frumsýnd eru opinberlega á tímabilinu 1. janúar 2015 til 31. desember 2015.