spot_img

Tvær kvikmyndir sem Sjón skrifar handrit að væntanlegar á árinu

Tvær kvikmyndir eftir handriti Sjón eru væntanlegar á árinu. Annarsvegar The Wolf Will Tear Your Immaculate Hands í leikstjórn Nathalie Álvarez Mesén og hinsvegar Werwulf í leikstjórn Robert Eggers.

Líkt og Klapptré skýrði frá í fyrra endurnýja þeir Eggers og Sjón samstarf sitt í Werwulf, en þeir skrifðu áður saman handritið að kvikmyndinni The Northman. Aaron Taylor-Johnson og Lily-Rose Depp, sem fóru með aðalhlutverkin í síðustu mynd Eggers, Nosferatu (2024) fara einnig með aðalhlutverkin í Werwulf. Tim Bevan og Eric Fellner hjá Working Title framleiða ásamt Eggers og Sjón. Fyrirhugað er að frumsýna myndina um jólin 2026 á vegum Focus Features og Universal.

Alexander Skarsgård, sem fór með aðalhlutverkið í The Northman, fer einnig með aðalhlutverkið í hrollvekjunni The Wolf Will Tear Your Immaculate Hands. Sagan gerist í norðvesturhluta bandaríkjanna um miðja 19. öld og segir af ungri konu af frumbyggjaættum sem menntuð er í trúboðsskóla og er ráðin til að kenna tveimur dætrum bresks ekkils. Auk Skarsgård fara Bronte Carmichael og Pernille August með helstu hlutverk. Hin sænska Nathalie Álvarez Mesén skrifar einnig handritið með Sjón ásamt því að leikstýra verkinu. Mesén vakti mikla athygli með frumraun sinni Clara Sola sem frumsýnd var á Director’s Fortnight í Cannes 2021. Anton Máni Svansson er einn framleiðenda fyrir Still Vivid, en verkið hlaut stuðning frá Kvikmyndasjóði. Sjón er einnig meðal framleiðenda. Margrét Einarsdóttir er búningahönnuður myndarinnar, en fleiri íslenskir kvikmyndagerðarmenn koma að verkinu. Myndin er væntanleg í maí að sögn Variety.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR