spot_img

Leikmunageymsla í Gufunesi brennur, áfall fyrir iðnaðinn segja leikmyndahönnuðir

Skemma í Gufunesi, sem hýsti ýmiskonar leikmuni, brann til grunna í gærkvöldi. Leikmyndahönnuðir lýsa þessu sem verulegu tjóni fyrir íslenska kvikmyndagerð.

Skemman var í umsjá True North.

RÚV skýrir frá því að leikmunageymslan í Gufunesi sé ein stærsta leikmunageymsla landsins og mikið notuð af nær öllum framleiðslufyrirtækjum í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi. Þar mátti meðal annars finna leikmuni, sett, búninga og tæki frá True North, Hernámssetrinu og Ríkisútvarpinu. Hluti af setti sem var notað í HBO sjónvarpsþáttunum True Detective var í geymslunni.

Í frétt RÚV er rætt við leikmyndahönnuðina Guðjón Sigmundsson og Úlf Grönvold hjá RÚV. Báðir segja þetta áfall fyrir bransann.

„Þetta eru menningarverðmæti sem hafa fuðrað upp,“ segir Guðjón. „Þetta er ein stærsta leikmyndaleiga á Íslandi. Þetta eru virkilega slæm tíðindi fyrir allan iðnaðinn,“ segir Úlfur Grönvold, leikmyndahönnuður hjá Ríkisútvarpinu. Stærsti hluti leikmunasafns RÚV er geymdur í Útvarpshúsinu í Efstaleiti en í fyrra voru margir hlutir fluttir í geymsluna í Gufunesi vegna plássleysis. Þar má nefna gömul sjónvörp og útvörp og aðrir períódu-hlutir frá fimmta, sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Leikmunasafnið geymdi mikil verðmæti

Í frétt RÚV segir einnig að erfitt hafi reynst fyrir sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn að finna stað fyrir leikmuni. Guðjón hefur unnið sem leikmyndahönnuður í 30 ár og lengi safnað alls kyns munum. Hann bendir á að geymsluhúsnæði séu dýr í rekstri. Úlfur tekur undir og segir að erfitt sé að finna fólk sem vilji borga undir geymslurými.

„Allir hafa notað þetta leikmunasafn og þetta eru ótrúleg verðmæti fyrir þá sem eru að vinna í kvikmyndagerð,“ segir Úlfur.

„En það er dýrt að reka þetta og leikmunasöfn hafa lengi verið á hrakhólum. Öll nema litla geymsla Ríkisútvarpsins.“

Verulegt tjón segir stjórnarformaður True North

Vísir ræðir við Guðjón Davíðsson, stjórnarformann True North:

„Við höfum verið með endurvinnslustefnu í fyrirtækinu að halda utan um leikmyndir og leikmuni til þess að geta endurnýtt í næstu verkefni, þannig þetta er hlutir sem við höfum safnað saman í gegnum tíðina, þannig þetta er verulegt tjón,“ segir Guðjón Davíðsson stjórnarformaður Truenorth. Meðal hluta sem voru í skemmunni eru leikmunir úr sjónvarps- og kvikmyndaverkefnum á borð við True Detective, Greenland, Vigdísi, Felix og Klöru, Dönsku konunni og fleirum. Þá voru þar einnig eldri munir frá Hernámssetrinu í Hvalfirði sem notaðir höfðu verið í kvikmyndatökur.
HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR