Dagskrá Bíóteksins í Bíó Paradís sunnudaginn 14. desember er sem hér segir:
15:00
Magnús Jóhannsson (1912-1997) – Gunnþóra Halldórsdóttir, sérfræðingur á Kvikmyndasafni Íslands, leiðir sýninguna.
Magnús Jóhannsson var brautryðjandi í íslenskri kvikmyndagerð. Að mennt var hann útvarpsvirkjameistari og kallaði sig gjarnan kvikmynda-amatör en samt varð hann fyrstur Íslendinga til að fá kvikmynd eftir sig sýnda á hátíðinni í Cannes. Hann hafði brennandi áhuga á tækninýjungum, prófaði sig áfram með stílfærðar upptökur og tók upp nokkrar dýralífsmyndir á tímum þegar slíkt var afar krefjandi. Magnús rak sjálfstætt viðgerðar-, innflutnings- og hljóðsetningarfyrirtæki og var jafnframt upphafsmaður kvikmyndavarðveislu á Íslandi. Á sýningunni verður farið yfir ferilinn og sýndar nokkrar mynda hans.
Hér er Klapptrésklippa sem fjallar um Magnús og hans verk.
17:00
Milli fjalls og fjöru (1949) – Spurt og svarað með Þórhildi Þorleifsdóttur og fleiri aðstandendum verður eftir sýninguna.
Frumsýning stafrænnar endurgerðar fyrstu íslensku leiknu talmyndarinnar í fullri lengd. Þetta er kvikmyndin Milli fjalls og fjöru, sveitalífsmynd Lofts Guðmundssonar sem gerist á 19. öld. Hún segir frá kotungssyni sem er sakaður um sauðaþjófnað, glæp sem á þeim tíma var talinn einn sá alvarlegasti. Ungi maðurinn á sér andstæðinga sem ýta undir gruninn en fær einnig stuðning þegar á reynir. Inn í frásögnina fléttast auk þess ástarsamband.
Kvikmyndasafn Íslands hefur gert kvikmyndina upp í samstarfi við RÚV sem tók að sér endurhljóðsetningu myndarinnar. Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrði nýju talsetningunni sem skartar meðal annars Kjartani Darra Kristjánssyni sem ljær Gunnari Eyjólfssyni sína rödd og í öðrum hlutverkum eru Pálmi Gestsson, Helga Braga Jónsdóttir, Örn Árnason, Guðrún Gísladóttir, Sigurður Sigurjónsson og Hanna María Karlsdóttir.
19:30
Óðal feðranna (1980) Ný stafræn endurgerð – Spurt og svarað með Hrafni Gunnlaugssyni
Frumsýning stafrænnar endurgerðar. Kvikmyndasafn Íslands hefur gert upp Óðal Feðranna í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar en hann skapaði sér nafn í íslenskri kvikmyndasögu með þessari mynd, sem varð nær samstundis klassísk. Með henni þreytti Hrafn frumraun sína í leikstjórn leikinna kvikmynda í fullri lengd eftir eftirtektarverðan feril í gerð sjónvarpsmynda. Söguefnið er íslensk sveitafjölskylda sem neyðist til að horfast í augu við nýjan veruleika þegar húsbóndinn fellur frá og örlög hennar reynast á valdi kaupfélagsins. Kvikmyndin er beitt ádeila á hið svokallaða „kaupfélagsveldi“ sem margir litu á sem meinsemd í íslensku samfélagi á síðari hluta 20. aldar og vakti strax miklar umræður og olli talsverðum deilum í þjóðfélaginu þegar hún kom fyrst út.













