Í yfirlýsingu dómnefndar segir:
Á aðeins 20 mínútum tekst Rúnari Rúnarssyni, leikstjóra myndarinnar O (Hringur), að draga upp áleitna, strangheiðarlega og sársaukafulla mynd af manni sem hefur verið yfirbugaður af áfengisfíkn. Sú myndræna ákvörðun að nota svart-hvíta filmu, eykur óróleika aðalpersónunnar upp í óbærilegt stig; sem áhorfendur finnum við örvæntingu hans þar til síðasta flaskan er tóm. Áfengissýkin er sýnd án fegrunar og með dásamlega nánu handbragði, kvikmynd sem er ekki aðeins listilega sannfærandi, heldur gæti einnig nýst í forvarnarskyni.
Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og eru þetta 20. alþjóðlegu verðlaun myndarinnar, sem er einnig í forvali til Óskarsverðlaunanna 2026. Myndin er í sýningum í Kringlubíói.
Heather Millard framleiðandi segir af þessu tilefni:
Þetta mikla ævintýri heldur áfram og erum við ótrúlega þakklát og stolt af þeim sem gerðu þessa mynd. Stærstu fréttirnar sem við bíðum eftir þessa dagana eru frá Bandaríkjunum. Nefndarstörf Óskars kvikmyndaakademíunnar eru í fullum gangi, en myndin okkar er í forvali vegna næstu Óskarsverðlauna. Annars erum við að undirbúa nýja mynd og stefnan er á tökur í byrjun næsta árs. En nánar um það síðar.