spot_img

Verðlaunagripur Íslensku sjónvarpsverðlaunanna kynntur, tilnefningar opinberaðar 21. október

Íslensku sjónvarpsverðlaunin verða haldin í fyrsta sinn fimmtudagskvöldið 30. október í Gamla bíói og kemur þá í ljós hver það verða sem þóttu standa fram úr í sjónvarpi á árunum 2023 og 2024.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslensku sjónvarpsverðlaununum, sem Kristján Freyr Halldórsson fer fyrir. Þar segir ennfremur:

Það eru þrír stærstu ljósvakamiðlar landsins sem standa að verðlaununum; Sjónvarp Símans, Sýn og RÚV og veitt verða verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt var á sjónvarpsstöðvum miðlanna á þessu tímabili.

Um er að ræða uppskeruhátíð sjónvarpsgeirans, eiginlega árshátíð og má geta þess að hátíðin verður einmitt ekki sýnd í sjónvarpi. Veislustjórar kvöldsins verða kunnar fyrrum sjónvarpsstjörnur, þau Björg Magnúsdóttir og Logi Bergmann Eiðsson. Ekki hefur verið verðlaunað fyrir sjónvarpsefni frá því árið 2023 og ríkir því mikil eftirvænting. Verðlaunað verður fyrir lengra tímabil en ella, sjónvarpsefni sem frumsýnt var á árunum 2023 og 2024 og ætla má að það verði gert á tvöföldum hraða fyrir vikið í Gamla bíói.

Merki Íslensku sjónvarpsverðlaunanna.

Hulunni var svipt af verðlaunagrip hátíðarinnar í dag og er hann hannaður af Stefáni Finnbogasyni. „Gripurinn er úr hnotu og gleri og er litaglaðari en margur verðlaunagripurinn sem við þekkjum fyrir. Það mætti segja að gamla góða stillimyndin sé fyrirmynd en hún inniheldur grunnlitina og vísar veginn sem eins konar núllstilling. Þegar litirnir blandast síðan saman gerast töfrarnir “ segir Stefán. Ásýnd verðlaunanna rímar svo við verðlaunagripinn og þar má einnig sjá klassísk minni frá Textavarpinu.

Tilnefningar til Íslensku sjónvarpsverðlaunanna verða tilkynntar á þriðjudag og fá þá allir aðstandendur tilnefndra verkefna gleðitíðindin auk upplýsinga um verðlaunakvöldið sjálft.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR