spot_img

Stutt gamanhrollvekja frumsýnd á YouTube

Stuttmyndin Gústi sterki og hefnd hafsins eftir Gunnjón Gestsson fór í loftið á YouTube á hádegi 22. september.

Gústi sterki og hefnd hafsins er sögð léttgegguð gamanmynd með ævintýra- og hrollvekju ívafi. Myndin segir af hetjudáðum Gústa sterka, glímukappa sem vinnur sem skrímslabani í hjáverkum og notar íslenska glímu í þrotlausri baráttu sinni gegn myrkraöflunum. Honum til halds og trausts er fósturdóttir hans Lolla sem er uppátækjasöm en stórsnjöll.

Í myndinni rænir varhugaverður marbendill tveimur sjómönnum og hyggst fórna þeim til Njarðar, drottins undirdjúpanna. Þau einu sem geta stöðvað þetta ráðabrugg eru Gústi sterki og Lolla.

Með helstu hlutverk fara Páll Sigurður Sigurrðson sem Gústi sterki, Rakel Ýr Stefánsdóttir sem Lolla og Fannar Arnarsson sem Marbendill.Tónlistina samdi Viktor Ingi Guðmundsson, handrit skrifuðu Gunnjón Gestsson og Orri Snær Karlsson, Gunnar Örn Blöndal sá um kvikmyndatöku, framleiðendur voru Elín Pálsdóttir, Arnar Már Vignisson og Rakel Ýr Stefánsdóttir, Ingibjörg Jenný Jóhannesdóttir hafði yfirumsjón með búningum og um eftirvinnslu lita og filmuáferð sá Logi Sigursveinsson.

Úrval umsagna um myndina á Letterboxd:

Gunnjón sýndi skemmtilega stutta heimildamynd á síðustu Skjaldborgarhátíð, Yfirnáttúra Íslands: Sæluhúsið við Jökulsá á Fjöllum. Þetta var rammíslensk draugasaga og góð, hrollvekjandi skemmtun. Virkaði eins og fyrsti þáttur nýrrar þáttaraðar og satt að segja væri vel til fundið að gera slíka þáttaröð. Nægur er efniviðurinn.

Gústi sterki og hefnd hafsins hefur verið sýnd á nokkrum kvikmyndahátíðum við góðar undirtektir. Hún var kjörin besta íslenska myndin á Frostbiter hryllingsmyndahátíðinni 2024, hún var í öðru sæti á Night Terrors hátíðinni í Kaupmannahöfn og var Marbendilinn var valinn besti skúrkurinn á TUFFEST í Tulsa Oklahoma ásamt því að myndin var kjörin besta stuttmyndin af áhorfendum.

Myndin var líka sýnd á Northern Lights Fantastic Film Festival á Akureyri og á RIFF í Reykjavík.

Myndina má skoða hér að neðan:

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR