spot_img

Lestin um ELDANA: Margt vel unnið en vantar sprengigos tilfinninga

„Kappið við tímann og stóra hættan er vissulega spennandi en þessar raunverulegu hamfarir eru ekki nærri því jafn áhugaverðar og tilfinningalegu hamfarirnar sem virtist stefna í um miðja mynd,“ segir Kolbeinn Rastrick í Lestinni á Rás 1 um Eldana eftir Uglu Hauksdóttur.

Kolbeinn skrifar:

Eldarnir er fyrsta kvikmynd Uglu Hauksdóttur í fullri lengd. Myndin er byggð á bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur sem ber nafnið Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir og kom út í lok árs 2020. Myndin fjallar um eldfjallafræðinginn Önnu Arnardóttur, sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikur, sem lifir að því er virðist mjög rólegu og hefðbundnu lífi með manni sínum Kristni, sem Jóhann G. Jóhannsson leikur og dóttur þeirra. Í iðrum jarðar kraumar þó eldheit kvika sem er að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Jarðskjálftahrinur skekja Reykjanesskaga og úti fyrir ströndum hans brýst út eldgos. Anna þarf að sýna fram á hættuna sem gæti stafað af eldunum sem gætu rifið landið í sundur og brotist upp á yfirborðið. Í þyrluferð yfir gosið hittir hún danska ljósmyndarann Thomas, leikinn af Pilou Asbæk, sem rétt eins og eldgosið bæði heillar og hræðir hana. Hann, rétt eins eldgosið ógnar heimili og fjölskyldu Önnu.

Samband Önnu og Thomasar er það sem fyrri hluti myndarinnar hverfist um. Hann er heimshornaflakkari, exótískur og spennandi og Anna er ekki lengi að verða ástfangin af honum. Hann stígur í vænginn við hana á móti og þrátt fyrir að Anna viti að þetta er hættulegur leikur ræður hún ekki við það hvernig hún dregst að honum. Neistarnir sem fljúga á milli þeirra eru nær áþreifanlegir og það tekst mjög vel í fyrri hluta myndar að binda saman þemað um ástina og hinar hamfarirnar. Ótal lítil atriði koma þessu til skila í myndlíkingum og andstæðum. Thomas gefur Önnu mynd sem hann tók af eldgosinu, en hún er í raun eftir ljósmyndarann RAX. Anna hengir myndina, svarthvíta, drungalega og áhrifamikla, upp á vegg heima hjá sér, en hún passar greinilega ekki við mjúka liti heimilisins né risastórt litríkt málverk sem hangir við hliðina. Eins verður jarðskjálfti til þess að mynd af hamingjusamri fjölskyldunni dettur um koll. Eldgosið og Thomas eru þannig augljóslega farin að brjóta sér leið inn á heimilið og raska þeirri ró sem þar ríkti. Eins er tónlistarsmekkur Kristins sem spilar nær stanslaust notalega djass tónlist á heimilinu settur upp andspænis svalari tónlistarsmekk Thomasar.

Í því samhengi má sérstaklega hrósa hljóðvinnslunni í Eldunum. Það er virkilega áhrifaríkt að finna sætin hristast og titra í bíósalnum í takt við kraft jarðhræringanna sem eru að eiga sér stað. Það hefur síður en svo verið sjálfgefið að íslenskar myndir séu vel hljóðblandaðar og því er hressandi að heyra hve vel er staðið að því í Eldunum. Eins eru allar brellur mjög vel gerðar og það er sérstaklega eitt atriði undir lok myndarinnar sem lítur virkilega vel út.

Persónu Önnu, sem er rökhugsandi vísindakona, er einnig stillt upp andspænis hinum listþenkjandi Thomasi sem gefur lítið fyrir meintar staðreyndir. Í því andstæðupari er persóna Önnu þó oft nálægt því að vera kjánaleg. Það er sérstaklega eitt atriði þar sem hún reynir að færa rök fyrir því hvað ást er, vísindalega, sem jaðrar við að vera hlægileg svo klisjukennd er senan. Þetta hrjáir persónu Önnu upp að vissu marki í gegnum myndina. Hún hegðar sér á svo ólíkan hátt eftir aðstæðum að það jaðrar við, að hún virðist margar mismunandi persónur. Þetta er ef til vill afleiðing þess sem á oft til að gerast þegar bækur sem sagðar eru í fyrstu persónu eru aðlagaðar að hvíta tjaldinu. Allt það innra líf sem á sér stað í bókinni kemst ekki til skila í myndinni og persónan verður allt of fjarlæg áhorfendum. Vigdís Hrefna gerir þó sitt besta til þess að miðla þessum flóknu tilfinningum sem krauma undir niðri. Í augnaráði hennar glittir oft í það sem er látið liggja ósagt.

Handrit Eldanna fer þó einnig ákaflega troðnar slóðir þegar kemur að togstreitu Önnu við aðrar persónur sögunnar. Sagan gengi auðvitað ekki upp nema að einhverjir væru á móti tillögum hennar og skoðunum á hættu eldgossins. Mótstaðan sem mætir Önnu er þó aldrei neitt sérstaklega sannfærandi, og það virðist sem mótleikarar Vigdísar trúi því nú varla sjálfir að hún hafi ekki rétt fyrir sér. Þór Tulinius er samt frábær sem Jóhannes, kollegi Önnu sem á erfitt með að sætta sig við að hún gæti vitað meira um eldgos en hann. Persónu hans þykir þó á sama tíma greinilega vænt um Önnu svo mótþróafýlan í honum stendur aldrei beint í vegi fyrir henni. Þessi persónulegu sambönd Önnu verða því aldrei að meiriháttar árekstrum né leiða að dramatísku uppgjöri. Eftir því sem líður á myndina færist fókusinn yfir í raunverulegu hættuna sem fylgir eldgosinu og persónulega sagan fær að víkja fyrir spennu hamfaramyndarinnar. Kappið við tímann og stóra hættan er vissulega spennandi en þessar raunverulegu hamfarir eru ekki nærri því jafn áhugaverðar og tilfinningalegu hamfarirnar sem virtist stefna í um miðja mynd.

Að því sögðu er það þó síður en svo að Eldarnir gangi ekki upp. Uppbyggingin og taktur myndarinnar heldur áhorfendum frá upphafi til enda. Andrúmsloft spennu og hættu sem hangir yfir persónunum er nær áþreifanlegt. Margt er virkilega vel unnið og það var greinilega vandað til verks. Það sem vantar þó er að Eldarnir komi saman í hinu stóra sprengigosi tilfinninga sem þemað um hamfarir ástarinnar vekur upp hugmyndir um. Sprengigosi hins tengda kvikubeltis. Í stað þess verða þau að tveimur aðskildum gosum sem svipar til hvor annars en ná ekki að tengjast á merkingarfullan hátt. Það er samt sem áður alltaf spennandi að sjá eldgos.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR