spot_img

Morgunblaðið um ELDANA: Leikur sér að eldinum

Í umsögn sinni í Morgunblaðinu um Eldana eftir Uglu Hauksdóttur skrifar Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars að það sé þess virði að fylgjast með langdregnum ástarþríhyrningi því þegar hasarinn hefst þá sé ekki hægt að líta undan.

Jóna Gréta skrifar:

Nýjasta mynd Uglu Hauksdóttur Eldarnir er kvikmyndaaðlögun á bókinni Eldarnir – Ástin og aðrar hamfarir sem er þriðja skáldsaga Sigríðar Hagalín og fjallar um eldfjallafræðinginn Önnu (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) sem þarf ekki einungis að taka stórar ákvarðanir í vinnunni, þar sem eldgos gæti ógnað öryggi borgarbúa, heldur líka í einkalífinu þegar hún kynnist hinum sjarmerandi ljósmyndara Thomasi (Pilou Asbæk) sem ógnar hjónabandi hennar. Anna er hins vegar sérfræðingur í því að leika sér að eldinum, en eins og hún orðar það sjálf þá er aðeins tímaspursmál hvenær fer að gjósa og allt kemur upp á yfirborðið.

Það getur verið vandi að aðlaga kvikmynd að bók og þegar maður horfir á Eldana fær maður á tilfinninguna að Ugla hafi ætlað sér að fylgja bókinni eftir bestu getu, sem er virðingarvert, en það hefði mögulega styrkt handritið ef hún og Markus, sem skrifuðu handritið saman, hefðu leyft sér að breyta meira og velja betur hvað skiptir raunverulega máli að komi fram svo að sagan skili sér. Að myndinni lokinni situr maður eftir og spyr sig: Hvað er myndin raunverulega um? Það er ekki mjög augljóst.

Margar ólíkar persónur fá til dæmis mikinn skjátíma. Jóhannes (Þór H. Tulinius) er þar á meðal en hann er eins konar andstæðingur Önnu í vísindaheiminum þótt þau séu gamlir vinir og samstarfsmenn og augljóslega mikil væntumþykja fyrir hendi. Jóhannes fær mjög mikið vægi í byrjun myndarinnar en svo er hann afskrifaður skyndilega í seinna hluta hennar þegar hamfarirnar hefjast, eins og hann hafi ekki verið einn af aðalpersónunum fyrir það. Það er skrítið að eyða svona miklum tíma í að kynna hann sem sögupersónu og þeirra samband en gefa persónunni síðan ekki góðan endi eða allavega ljúka sögu hans.

Það er líka engin skýr persónuþróun hjá Önnu. Raunar mætti hæglega lesa myndina þannig að henni sé í reynd refsað fyrir að halda fram hjá því hún fórnar bæði fjölskyldu sinni og starfsferli fyrir Thomas en fær ekki uppgjör því myndin endar á klettanöf (e. cliffhanger) þegar hamfarirnar virðast vera að ná hápunkti.

Það sem Ugla gerir hins vegar vel er að mála Kristin (Jóhann G. Jóhannsson), eiginmann og barnsföður Önnu, ekki upp sem illmenni heldur leyfa áhorfendum að finna til með honum og í leiðinni leyfa Önnu að vera á köflum fráhrindandi. Það er áhætta að leyfa svona gallaðri kvenpersónu að leiða áfram söguframvinduna því það getur fælt áhorfendur frá. Auk þess eru áhorfendur oft síður tilbúnir að samþykkja hegðun eins og þessa hjá kvenkyns persónum. Það virkar hins vegar í þessari mynd vegna þess að með því að leyfa henni að vera gölluð verður hún um leið marglaga og manneskjulegri.

Það eru þrír mikilvægir menn í lífi Önnu: Jóhannes, Kristinn og Thomas, en þeir eru greinilega of margir miðað við skyndileg endalok sögu Jóhannesar. Það hefði raun í mátt sameina persónurnar Jóhannes og Thomas í eina til að einfalda en um leið styrkja söguna. Með því að láta ástmanninn vera andstæðing hennar í vísindaheiminum hefði verið hægt að búa til meiri spennu í þeirra sambandi, sem vantar stundum á milli Önnu og Thomasar í myndinni, og mikilvæga atriðið þar sem samstarfskona Önnu (María Heba Þorkelsdóttir) segir henni að fólk sé farið að tala um hana og spyrja hvort persónulega lífið sé farið að hafa áhrif á vinnu hennar, stendur enn sem afar mikilvægt atriði af því að það er eins konar hápunktur í myndinni og þar sem hamfarirnar hefjast.

Það er erfitt að flokka Eldana undir ákveðna kvikmyndagrein. Ef Eldarnir er hamfaramynd þá eru myndirnar Nói albínói (Dagur Kári, 2003) og Kaldaljós (Hilmar Oddsson, 2003) það líka. Því rétt eins og í Eldunum þá eiga hamfarirnar sér stað bara í blálokin. Ugla notar íslenska náttúru, í þessu tilfelli eldgos, til að endurspegla innra líf persóna en náttúran hefur gegnt stöðugu hlutverki í íslenskum kvikmyndum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldgos er notað til samanburðar við innri átök persóna, Elsa María Jakobsdóttir gerði það til dæmis í Villibráð (2023).

Stærstum hluta myndarinnar er eytt í samband Önnu við mennina þrjá í lífi hennar og umræður um mögulegt eldgos. Sá hluti er mjög langdreginn og það hjálpar ekki að tökuvélin er oft langt í burtu og persónurnar fylla aðeins lítinn hluta af skjánum, eins og til dæmis atriði í svefnherberginu þar sem við sjáum hjónin bara í spegli en veggurinn fyllir stærsta hluta rammans. Í þessu atriði eins og svo mörgum langar mann líka að komast nær persónunum, fá fleiri nærmyndir, og skilja þannig betur hvar þær eru staddar tilfinningalega í þessum hæga rússíbana. Að því sögðu þá er kvikmyndatakan hjá Ollie Down mjög vönduð og skotið í svefnherberginu mjög fallegt en þjónar ekki endilega söguþræðinum.

Það er ekki fyrr en undir lok myndarinnar sem hamfarirnar hefjast og það er þá sem myndin togar áhorfendur virkilega inn. Sá hluti er besti hluti myndarinnar og mjög vel gerður hjá teyminu en maður getur rétt svo ímyndað sér hversu flókið það er að búa til sannfærandi hamfaraástand í íslenskri bíómynd þar sem fjármagnið er yfirleitt frekar takmarkað. Eldarnir er í heild mjög metnaðarfullt verk og strax í byrjun myndarinnar var ljóst að hér væri eitthvað nýtt á seyði þar sem það var strax annar keimur af henni en mörgum öðrum íslenskum myndum.

Tökuvinklarnir eru öðruvísi og tökustaðirnir eru frumlegir eða allavega skotnir þannig að þeir virka frumlegir. Uglu tekst að skapa annan heim í gegnum kvikmyndaformið, aðra útgáfu af Íslandi, með hjálp leikmyndarinnar, sem Heimir Sverrisson hannaði. Í þessum söguheimi eru til dæmis allar fræðibækurnar í svipuðum lit svo þær séu í stíl og húsin líkjast því sem sést í Fyrrum vélmenni (e. Ex Machina, 2014) eftir Alex Garland, ferköntuð og nýtískuleg. Einnig er vert að nefna tónlistina sem Herdís Stefánsdóttir samdi. Hún þjónar mikilvægu hlutverki í því að skapa réttu stemninguna hverju sinni með viðeigandi taktbreytingum og drunum.

Eldarnir er fyrsta kvikmynd Uglu í fullri lengd. Undirrituð myndi ekki ganga svo langt að segja að þetta sé fyrsta hasarmyndin á Íslandi þar sem allur hasarinn á sér stað í lokin en það er þess virði að fylgjast með langdregna ástarþríhyrningnum því þegar hasarinn hefst þá er ekki hægt að líta undan. Það verður því spennandi að fylgjast með því hvaða íslensku verkefni hún tekur að sér næst. Eins og fram hefur komið þá er ljóst strax í byrjun myndarinnar að hér er á ferðinni nýtt auga og þó svo kvikmyndatakan, tónlistin og leikmyndin eigi stóran þátt í því þá er það söguheimurinn sem Ugla skapar sem gerir að verkum að áhorfendur upplifa eitthvað nýtt og spennandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR