spot_img

Áformað að Kvikmyndasafnið verði hluti af Landsbókasafninu

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur kynnt áform um sameiningu Hljóðbókasafns Íslands, Kvikmyndasafns Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Segir í tilkynningu frá ráðuneytinu:

Sameiningin byggir á frumathugunum sem sýna fram á faglegan ávinning og betri nýtingu opinberra fjármuna.

Við sameininguna verða Hljóðbókasafnið og Kvikmyndasafnið að sérstökum einingum innan Landsbókasafns. Sameining mun leysa yfirvofandi húsnæðisvanda Hljóðbókasafnsins auk þess sem núverandi húsnæði Kvikmyndasafns Íslands í Hafnarfirði hentar betur til varðveislu en rannsókna og miðlunar.

Markmið sameiningarinnar eru meðal annars :

  • Að gera starfsemi safnanna skilvirkari og styrkja faglega starfsemi
  • Að stuðla að hagkvæmni í rekstri og betri nýtingu innviða og stoðþjónustu
  • Að auka aðgengi almennings að menningararfi þjóðarinnar
  • Að efla miðlunarhlutverk sameinaðrar stofnunar á fjölbreyttan og nútímalegan hátt
  • Að bjóða upp á fyrsta flokks aðstöðu fyrir fræðimenn til að rannsaka menningararf þjóðarinnar á fjölbreyttu formi, allt frá handritum til tónlistar og kvikmyndaefnis
  • Að Þjóðarbókhlaðan verði kraftmikið samfélagsrými þar sem nálgast megi fræðslu, upplifanir og innblástur

Frumvarp væntanlegt í haust

Þjónusta og staðsetning safnanna helst óbreytt fram að formlegri sameiningu en ráðgert er að hún gangi í gegn seinni hluta ársins 2026. Nánari upplýsingar um sameiningu verða kynntar notendum sérstaklega þegar nær dregur. Starfsmönnum safnanna hefur verið greint frá sameiningartillögunni og verður undirbúningur sameiningarinnar unninn í virku samtali við þá.

Sameining safnanna þriggja kallar á lagabreytingu og er frumvarp þar að lútandi væntanlegt í vetur. Forstöðumenn safnanna þriggja, Marín Hrafnsdóttir, Þóra Sigríður Ingólfsdóttir og Örn Hrafnkelsson, sitja í tveimur starfshópum sem nú ráðast í gerð samrunaáætlunar, skilgreina og framfylgja verk-, tíma- og kostnaðaráætlun og vinna að lausn annarra úrlausnarefna.

Aukinn kraftur í stafvæðingu

Samhliða sameiningunni verður aukinn kraftur settur í stafvæðingarátak menningararfsins, sem lengi hefur staðið fyrir dyrum. Sérhannaðar kæligeymslur Kvikmyndasafnsins verða áfram staðsettar að Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, en vonir standa til að húsakosturinn muni m.a. nýtast fyrir sameiginlegt stafvæðingarátak menningarstofnana landsins. Metnaðarfull áform stjórnvalda um varðveislu menningararfleiðar á stafrænu formi hafa ekki komist til framkvæmda nema að litlu leyti en fyrirhugað er að kynna uppfærðar áætlanir í þeim efnum í upphafi næsta árs.

Út frá rekstrarlegu sjónarmiði er margt sem mælir með sameiningu þessara safna, en sambærileg þróun hefur átt sér stað bæði í Noregi og Danmörku. Þess utan er sameining til þess fallin að auka aðgengi jafnt almennings sem fræðimanna að safnkosti safnanna þriggja. Í sameinuðu safni verður því enn meiri sérfræðiþekking á skráningu og forvörslu efnis á fjölbreyttu formi, miðlun og sýningarstjórn. Þekkingaryfirfærsla, þvert á söfn, verður því umtalsverð auk þess sem stærri og öflugri stofnun nýtur fjölbreyttra samlegðaráhrifa svo sem í mannauðsmálum, gagnageymslu, tæknimálum og fjármálum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR