Myndin var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, en í henni í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins, auk fulltrúa kvikmyndahúsa, kvikmyndagagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Þetta er í þriðja sinn sem Hlyni hlotnast þessi heiður. Kvikmyndir hans Hvítur, hvítur dagur og Volaða land voru framlag Íslands árin 2020 og 2024. Volaða land náði þeim einstaka árangri að komast inn á stuttlista akademíunnar það árið.
Í umsögn dómnefndar um Ástina sem eftir er segir:
Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin í 98. sinn sunnudaginn 15. mars 2026. Stuttlisti verður kynntur 16. desember áður en tilnefningar til verðlaunanna verða opinberaðar 22. janúar 2026.
Ástin sem eftir er var heimsfrumsýnd í aðaldagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í vor og var nýlega tekin til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum. Hún fangar ár í lífi fjölskyldu þar sem foreldrarnir stíga fyrstu skrefin í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra.
Með helstu hlutverk fara Saga Garðarsdóttir, Sverrir Guðnason, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils Hlynsson, Grímur Hlynsson, Ingvar Sigurðsson og Anders Mossling.
Anton Máni Svansson, hjá STILL VIVD, framleiðir myndina ásamt Katrin Pors hjá danska framleiðslufyrirtækinu Snowglobe. Meðframleiðendur eru Mikkel Jersin og Eva Jakobsen hjá Snowglobe (Danmörku), Nima Yousefi hjá HOBAB (Svíþjóð), Didar Domehri hjá Maneki Films (Frakklandi), Anthony Muir og Kristina Börjeson hjá Film I Väst (Svíþjóð), Olivier Pere og Remi Burah hjá Arte France Cinema (Frakklandi).
Myndin er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands, Menningar- og viðskiptaráðuneyti Íslands, Danska kvikmyndasjóðnum, Nordisk Film & TV Fond, sænska kvikmyndasjóðnum, Creative Europe MEDIA, Sveitarfélagi Hornafjarðar, RÚV, Jour de Fête, ARTE, Max Dreifingu, SVT og DR.
New Europe Film Sales sér um alþjóðlega sölu líkt og með fyrri myndir Hlyns – Volaða land (Un Certain Regard, Cannes), Hvítan, hvítan dag (Critics’ Week, Cannes) og Vetrarbræður (aðalkeppni Locarno), auk stuttmyndanna Hreiðurs (Berlinale Special) og Jóhönnu af Örk (Zabaltegi-Tabakalera, San Sebastian).













