Hátíðarsýningar á ÍSLENSKA DRAUMNUM og ASTRÓPÍU

Sérstök hátíðarsýning fór fram í gær í Smárabíói á Íslenska draumnum eftir Róbert Douglas. Sýningin fór fram í tilefni 25 ára afmælis myndarinnar. Þá verður Astrópía eftir Gunnar Björn Guðmundsson sýnd í Sambíóunum þann 17. apríl næstkomandi. Kvikmyndafélag Íslands framleiddi báðar myndirnar.

Íslenski draumurinn fjallar um draumóramanninn Tóta, mann sem hefur hugsað sér að gerast ríkur á því að flytja inn búlgarskar sígarettur til Íslands. Þess á milli lendir hann í rifrildi við fyrrverandi konuna, sem er eitthvað fúl út í Tóta vegna nýju kærustunnar sem er 18 ára. Myndin naut mikilla vinsælda þegar hún kom út árið 2000. Róbert Douglas leikstýrði og skrifaði handrit. Með helstu hlutverk fara Þórhallur Sverrisson, Jón Gnarr, Hafdís Huld og Laufey Brá Jónsdóttir.

Astrópía fjallar um samkvæmisstúlkuna Hildi sem verður fyrir áfalli í einkalífinu og af illri nauðsyn neyðist hún til þess að vinna í búð sem sérhæfir sig í hlutverkaleikjum og hasarblöðum. Fyrr en varir heillast hún af ævintýrum hlutverkaleikjanna. Mörkin milli ævintýra og raunveruleika verða óskýrari og ofurhetjan vaknar til lífsins. Myndin varð einnig geysivinsæl þegar hún kom út árið 2007. Gunnar Björn Guðmundsson leikstýrði, en handrit skrifuðu Ottó Geir Borg og Jóhann Ævar Grímsson. Með helstu hlutverk fara Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Snorri Engilbertsson, Jörundur Ragnarsson, Halla Vilhjálmsdóttir og Davíð Þór Jónsson.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR