GULLSANDUR, VAMPYR og fyrsta mynd Peter Weir í Bíótekinu

Gullsandur Ágústs Guðmundssonar, Vampyr eftir Carl Th. Dreyer og The Cars That Ate Paris eftir Peter Weir verða á dagskrá Bíóteksins í Bíó Paradís sunnudaginn 2. mars.

Dagskráin er sem hér segir:

Úr Vampyr eftir Carl. Th. Dreyer.

15.00
Vampyr (1932) – 75 mín
Á ferðalagi um sveitir Frakklands um nótt, vaknar hinn ungi Allan Gray upp við við að gamall maður stendur inni í herberginu hans og skilur eftir pakka með áletruninni „opnist eftir dauða minn.“ Í pakkanum leynist dularfull bók um djöfla sem kallast vampírur og á Allan taka að sækja óútskýrð fyrirbæri. Myndin er fyrsta hljóðmynd danska kvikmyndameistarans Carls Th. Dreyer og tekur á hinu dulræna og hræðilega. Dreyer átti í tæknilegum erfiðleikum með hljóðupptökur við gerð myndarinnar en tókst þó að beisla hljóðrásina til að skapa andrúmsloft ótta sem á engan sinn líka þótt hann sleppi ekki alveg tökunum á stíl þöglu myndanna. Viðar Víkingsson leikstjóri og sérlegur aðdáandi Carl Th. Dreyer og hryllings- og fantasíukvikmynda verður með stutta, fróðlega og skemmtilega kynningu fyrir sýninguna.

Arnar Jónsson í Gullsandi.

17.00
Gullsandur (1984) – 98 mín
Gullsandur er gamansöm kvikmynd með pólitísku ívafi sem Ágúst Guðmundson bæði skrifar og leikstýrir. Myndin fjallar um smábæ á suðurströnd Íslands og hvernig gullfundur á nærliggjandi söndum umturnar hinum rólega smábæjaranda í sannkallaða ringulreið. Með aðalhlutverk fara Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson. Ágúst Guðmundsson leikstjóri myndarinnar ræðir við áhorfendur eftir sýninguna.

Úr The Cars That Ate Paris.

19.20
The Cars That Ate Paris (1974) – 88 mín
Kvikmynd Peter Weir um bílana sem átu París er frumleg hryllingsmynd með grínívafi og jafnframt hans fyrsta mynd í fullri lengd. Kvikmyndin gerist í smábænum París í Ástralíu þar sem íbúarnir virðast lifa á bílslysum á einn eða annan hátt. Kvikmyndin var sýnd í Cannes árið 1974 og gekk mjög vel. Í dag telst myndin til upphafsára áströlsku nýbylgjunnar og mikilvægra költkvikmynda. Peter Weir skrifaði handritið sem er ádeila á ástralska bílamenningu og áminning um að örar tæknibreytingar geta valdið samfélagslegum skaða. Hann hlaut heiðursverðlaun fyrir ævistarf sitt nýlega bæði í Feneyjum og Óskarsverðlaunahátíðinni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR