Kolbeinn skrifar:
Þetta er fyrsta mynd Þórðar Pálssonar í fullri lengd en handritið skrifaði hann ásamt Jamie Hannigan. Hún er íslensk, ensk, írsk og belgísk samframleiðsla, nær allir leikararnir eru erlendir og enska töluð þótt nöfn persónanna séu íslensk. Sagan segir frá Evu, ungri ekkju, sem Odessa Young leikur, sem á verbúðina ein eftir að maður hennar ferst á sjó. Þar býr hún með sex sjómönnum og ráðskonunni Helgu, leikinni af Siobhan Finneran. Það er hart í ári, maturinn er að klárast og þau eru föst í firðinum sökum veðurs.
Einn slæman veðurdag verða þau vitni að skipbroti í dröngunum sem þau kalla Tennurnar, rétt fyrir utan fjörðinn. Augljóst er að þetta er erlent seglskip og Eva stendur frammi fyrir erfiðum valkostum, að hætta sér þangað út fyrir til þess að bjarga skipverjunum eða skilja þá eftir í höndum guðs. Eva sér fram á að björgunaraðgerðin verði hættuleg og ekki nóg með það, heldur væri engin leið fyrir þau að gefa þeim sem tækist að bjarga að borða. Eva ákveður að þau verði í landi. Líkunum skolar upp í fjöruborðið daginn eftir og fljótt fara undarlegir hlutir að gerast í verbúðinni. Hlutir sem Helga segir vera á ábyrgð framliðinna drauga sem ætli sér að koma þeim öllum fyrir kattarnef.
Form The Damned minnir mjög á íslensku þjóðsögurnar, einhver gerir á hlut hinna dauðu sem gera sitt ýtrasta til að hefna fyrir það. Tíðarandinn er óaðfinnanlegur og þrátt fyrir að leikararnir séu hvorki íslenskir né tali íslensku er sögusviðið svo rammíslenskt að það breytir engu. Búningarnir og leikmyndin hjálpa allverulega til en það eru ekki síst leikararnir sem gefa myndinni fortíðarblæ. Það er ekki einn veikur hlekkur í hópnum og þau leika öll á mjög áhrifaríkan hátt þessar skálduðu sögulegu persónur. Förðunardeildinni hefur einnig tekist að láta þau öll líta út eins og þau séu raunverulega búin að vera að vinna í þessari verbúð síðasta árið.
The Damned sækir augljóslega innblástur í hægar hryllingsmyndir sem hafa verið vinsælar síðasta áratuginn og má þar til dæmis nefna myndir Robert Eggers eins og The Witch og The Lighthouse. Eins og í þeim er áherslan á sálfræðileg áhrif á fólk á einangruðu svæði og hryllingurinn er sprottinn úr þjóðsögum og trú þess tíma. Þetta er náttúrlega efni í kvikmynd sem var bara tímaspursmál að yrði nýtt í íslensku samhengi. The Damned nær sérstaklega vel að blanda þessum yfirnáttúrulega hryllingi við hrylling einangruninnar og þess erfiða lífs sem forfeður okkar hafa lifað á þessu guðsvolaða landi. Góðverk eru lúxus sem sjómenn sögunnar hafa einfaldlega ekki efni á. Yfirnáttúrulegi hryllingurinn er draugurinn en raunverulegi hryllingurinn er hvernig íbúar verbúðarinnar snúast hægt og rólega gegn umheiminum og svo hver öðrum. Í myndinni birtist mjög áhugaverð tenging við baskavígin og ofsóknaræðið sem einkenndi þau lita sögu The Damned.
Það sem virkar best í hryllingsmyndum er oftast óttinn við hið óþekkta. Hann einkennir oftast fyrri hluta þeirra þar sem að persónurnar jafnt sem áhorfendurnir vita ekki hvernig skrímslið lítur út eða eftir hvaða reglum það spilar. The Damned tekst að halda í þennan ótta fram undir blálokin. Með því að gera ekki bara skrímslið að ófyrirsjáanlegri ógn heldur einnig allar mannlegu persónurnar eru hvorki áhorfandinn né persónur myndarinnar nokkurn tímann vissar um hvenær þær eru öruggar. Þetta gerir The Damned að mjög sterkri heild.
Annað sem myndin á sameiginlegt með fyrrnefndum hægum hryllingsmyndum er að persónurnar trúa hér um bil um leið á að eitthvað yfirnáttúrulegt sé á kreiki. Það eru ófáar hryllingsmyndir sem gerast nær okkar tíma þar sem allur fyrri helmingurinn fer í að sanna fyrir hinni eða þessari persónu að þetta sé draugur. Persónur The Damned búa við þær aðstæður að það getur vel verið að draugar séu á vappi um bæinn rétt eins og það getur vel verið að hægt sé að kveða þá niður með rúnum eða táknum Guðs. Þessi trúarvinkill er mjög hressandi þegar hann er bundinn við sagnfræðilegan bakgrunn sögusviðsins.
The Damned er hörkugóður hryllingur sem smýgur inn undir húðina og nær að halda í óttann sem einangraðar persónur sögunnar finna fyrir. Hún er samt ekki bara æfing í að bregða áhorfendum heldur einnig mjög áhugaverður sögulegur skáldskapur lífs og þjóðtrúar fyrri alda hér á landi.