Magnús skrifar ítarlega um þættina og tekur hvern fyrir sig fyrir. Hér er niðurlagið:
Fyrir fólk sem dáir Vigdísi Finnbogadóttur mun Vigdís slá rækilega í gegn. Fyrir áhugasama og forvitna um forsetann fyrrverandi vekur þáttaröðin örugglega enn meiri forvitni. Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði og má þar kenna átakalítilli sögu um.
Mikið er lagt í framleiðsluna, búningar og gervi eru eins og dregin út úr fortíðinni, leikmyndin er sannfærandi og tónlistin góð þó drungi taki yfir á löngum köflum. Lýsing og myndataka eru fagmannlegar þó undirrituðum finnist vantar meiri og dýnamískari lýsingu.
Fjöldi leikara fer með hlutverk í þáttunum og er leikurinn heilt yfir stórgóður. Aðalleikkonurnar Elín Hall og Nína Dögg eru stórkostlegar en Kristín Þóra er líka fantagóð. Gaman er að sjá unga leikara spreyta sig, Ísadóra Bjarkardóttir er frábær sem Magga og Ágúst Wigum ágætur sem Bói. Þá er aragrúi góðra aukaleikara, hvort sem það er Thelma Rún, Ebba Katrín, Jóhannes Haukur, Bergur Ebbi, Sólveig Arnars eða Björn Thors. Hanna María Karlsdóttir er frábær sem öldruð móðir Sigríðar þó hún sé ekki sannfærandi í fyrstu tveimur þáttunum.
Það sem dregur úr ágæti Vigdísar er handritið og uppbygging þáttanna. Sambönd persóna eru ekki þróuð nægilega til að ákveðnar vendingar hreyfi við manni. Sömuleiðis tekst ekki að búa til nægilega mikla spennu þegar þess þarf. Vigdís þroskast ekkert sem persóna og skortir breyskleika til að verða trúanleg persóna.
Stóra spurningin sem ákvarðar hvort ævisögulegt efni heppnast eða ekki er: „Myndi ég nenna að horfa áfram ef þetta væri um skáldaða persónu en ekki alvöru manneskju?“ Svarið í tilfelli Vigdísar er því miður: „Nei.“