Söluaðili Guðaveiga – hið þýska Picture Tree International – segir það góðs viti að sala sé farin í gang áður en myndin verður kynnt á Berlinale hátíðinni sem fram fer í febrúar. Þar byrjar hið eiginlega kynningarstarf og þetta sé ákveðin vítamínsprauta í það starf. Markelsbræður, Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson, eru að undirbúa sig undir Berlínarhátíðina með næsta verkefni sem gæti verið af annarri stærðargráðu en hingað til.
Guðaveigar gengur undir nafninu Divine Remedy erlendis og er þriðja mynd Markelsbræðra sem leikstjórar. Hinar eru Síðasta veiðiferðin og Allra síðasta veiðiferðin. Einnig hafa þeir félagar framleitt gamanmyndir eftir aðra leikstjóra – Amma Hófí eftir Gunnar Björn Guðmundsson, Saumaklúbbinn eftir Göggu Jónsdóttur og Fullt hús eftir Sigurjón Kjartansson.
Guðaveigar er í sýningum í kvikmyndahúsum um þessar mundir og hafa tæplega ellefu þúsund manns séð hana.