Skarphéðinn Guðmundsson: Hvernig á að tryggja framleiðslugrundvöll og framtíð fjölbreytts sjónvarpsefnis

Skarphéðinn Guðmundsson tekur stöðuna við lok 12 ára dagskrárstjóratíðar sinnar hjá RÚV og hvetur nýja ríkisstjórn til að "marka djúp og varanleg spor í átt að því að treysta til framtíðar grundvöll kvikmyndaframleiðslu og dagskrárgerðar á íslensku."

Skarphéðinn skrifar á Facebook síðu sína:

Það var sérstök tilfinning að fylgja úr hlaði síðustu dagskrárliðunum nú fyrir áramót og deila með þjóðinni. Af ótal ansi hreint frambærilegum dagskrárliðum – þó ég segi sjálfur frá – má nefna ellefta Skaupið á minni vakt og minni ábyrgð (mér finnst það bráðvel heppnað hjá Maríu Reyndal og hennar teymi fyrst enginn var að spyrja) og svo nú í gærkvöldi, langþráð frumsýning á Vigdísi, sem verið hefur í undirbúningi í æði mörg ár eins og næsta óhjákvæmilegt er með umfangsmiklar og metnaðarfullar íslenskar leiknar seríur.

Ég hef verið svo lánsamur að fá tækifæri til að velja og taka þátt í að veita slíkum verkefnum brautargengi fyrir hönd RÚV okkar allra á liðnum tólf árum og það hafa verið ekkert minna en forréttindi að starfa með þessu kraftaverkafólki sem að leiknum íslenskum þáttaröðum standa. Kraftaverkafólki segi ég því þessi verkefni, sbr. farsæl verkefni sem RÚV hefur hlotnast heiður að sýna á undanförnum áratug á borð við Verbúð, Ófærð, Fanga, Aftureldingu, Ráðherrann, Ligeglad, Pabbahelgar og Húsó, verkefni sem flest hver eru svo óendanlega mikilvæg íslenskri menningu og sjónvarpsflóru, kölluðu á hreint óútskýranlega elju og baráttuþol. Þegar slík verkefni verða að veruleika – sem sannarlega tekst ekki alltaf – er það gjarnan að þakka óbilandi ástríðu, útsjónarsemi, þrautseigju og svo að sjálfsögðu fagmennsku, listrænu innsæi og hæfileikum þeirra sem að standa. Og þau eru blessunarlega fleiri slík verkefnin framundan, eins og Felix og Klara Ragnars Bragasonar og Danska konan Benedikts Erlingssonar.

Þessum nauðsynlega neista verðum við með öllum ráðum og dáðum að viðhalda og tendra áfram hjá íslensku kvikmyndagerðarfólki. Gleymum þá ekki hversu dýrmætt það er að geta gert því kleift að segja sögur úr íslenskum veruleika, út frá íslensku samhengi, sögunni og samfélaginu, á íslensku. Því ef við gerum það ekki þá munu engir aðrir gera það.

Og dæmin og mælingar hafa margítrekað sýnt að þetta efni kjósa sjónvarpsáhorfendur á Íslandi að sjá frekar en flest annað og þar meðtalið allra vinsælasta erlenda afþreyingarefnið. En slík kjörstaða er ekki sjálfgefin heldur áunnin og helgast af einlægum áhuga, sjálfsprottnu vali, tiltrú og trausti áhorfenda til íslenskrar sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu.

Það segir sig sjálft og þarfnast vart frekari rökstuðnings að ef við ætlum okkur í alvöru að vernda og varðveita íslenska tungu þá skiptir fátt meira máli en að hér þrífist áfram blómleg íslensk framleiðsla og dagskrárgerð sem ennþá þykir óhætt að bera á borð á íslensku. Og hér nikka ég hik- og grímulaust nýja ríkisstjórn og ráðherra sem fara með þá málaflokka sem hér bera ábyrgð. Upp er runnin ögurstund og ykkar er dauðafærið að marka djúp og varanleg spor í átt að því að treysta til framtíðar grundvöll kvikmyndaframleiðslu og dagskrárgerðar á íslensku.

Við getum verið afar stolt af því að á næstu vikum og mánuðum verður svo vönduð og vel lukkuð íslensk þáttaröð eins og Vigdís frumsýnd um gervöll Norðurlönd og síðan víðar um heim. Alíslensk þáttaröð á íslensku þar sem af listfengi og fagmennsku er sögð einstök saga af einstakri íslenskri konu, ekki einasta í samhengi Íslandssögunnar heldur gervallrar mannkynssögunnar. Þannig mun okkur auðnast að upplýsa heimsbyggðina örlítið betur um þessa fámennu þjóð, sögu hennar, samfélag, sérstöðu, gildi og menningu. Og þannig mun áfram breiðast út hróður íslenskrar kvikmyndagerðar, kraftaverkafólksins sem hvorki nágrannar okkar á Norðurlöndunum né aðrir í Evrópu og víðar um heim botna í hvernig fara að því að framleiða eins mikið af vönduðum verkum, kvikmyndum, heimildamyndum og sjónvarpsþáttaröðum, komandi frá ekki fjölmennari þjóð. En þar kemur aftur að þessari elju, þrautseigju og ástríðu – sem flytja fjöll og við áhorfendur og unnendur getum verið þakklát fyrir.

Eitt af því sem ég hef komist að í starfi mínu sem dagskrárstjóri hjá RÚV er þetta lykilhlutverk stofnunarinnar þegar kemur að íslenskri kvikmyndagerð og framleiðslu almennt. Ekki einasta við að framleiða, vera samstarfsaðili að eða kaupa til sýningar efni sem samræmist dagskrárstefnunni hverju sinni og er talið eiga erindi við þjóðina, heldur einnig þegar kemur að því að veita verkefnum brautargengi, koma að þróun og styðja við erlenda fjármögnun þeirra og dreifingu. Fátt er þýðingarmeira og árangursríkara þar en að eiga í traustu, góðu og virku samstarfi við sambærilegar erlendar sjónvarpsstöðvar og mikilvæg dreifingarfyrirtæki sem opin eru fyrir því að koma að framleiðslu og dreifingu á íslensku efni. Það hefur okkur á RÚV tekist á liðnum árum að efla, tryggja og vonandi treysta til framtíðar, m.a. með því að hafa tekið virkan þátt í að leggja grunninn að og gerast beinn aðili að meðframleiðslusamstarfi á borð við Nordic12 (N12), sem miðar að því að fimm af norrænu almannaþjónustustöðvunum framleiða og miðla saman tólf leiknum þáttaröðum á ári, B15, þar sem sömu norrænu stöðvar framleiða saman og miðla fimmtán leiknum verkefnum ætlað börnum og ungmennum og nú síðast NEW8 sem er nýtilkomið samstarf norrænu N12 stöðvanna við evrópsku almannaþjónustumiðlana ZDF frá Þýskalandi, NPO frá Hollandi og VPR frá Belgíu.

Leyfi ég mér að fullyrða og vona að tekist hafi með þessu samstarfi að festa leikið íslenskt sjónvarpsefni enn frekar í sessi, bæði hvað varðar fjármögnun og dreifingu. Samstarf þetta hefur vakið afar mikla athygli um heim allan enda þykir það marka þáttaskil og geta orðið einhver mikilvægasti varnarsigur evrópskra sjónvarpsstöðva gegn ört vaxandi útbreiðslu, gervigreind, völdum, fjárhagslegum yfirburðum og það sem kannski mest er um vert menningarlegum áhrifum alþjóðlegra efnisveitna.

Aftur og enn þarf ekki að hafa mörg orð til að rökstyðja mikilvægi þess fyrir íslenska kvikmyndagerð að RÚV skuli vera stofnaðili og eigi virka aðkomu að slíku samstarfi. Ekki hvað síst þegar horft er til vaxandi áskorana við fjármögnun og dreifingu efnis á öðru tungumáli en ensku. Þegar umræðan sjálfsagða um erindi og mikilvægi RÚV og almennt um tilgang almannaþjónustumiðils vill þetta gríðarlega mikilvæga hlutverk RÚV sem beinn og ómissandi hlekkur í framleiðslukeðju íslenskrar kvikmyndagerðar, hér heima og á alþjóðavísu, gjarnan gleymast og ber því að halda frekar á lofti. Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

En þrátt fyrir allan þennan utanaðkomandi mótvind og frekari blikur á lofti þegar kemur að því að tryggja framleiðslugrundvöll og framtíð fjölbreytts sjónvarpsefnis á öðrum tungum en ensku þar sem grunnmarkmið er að segja sögur frá eða draga upp mynd af afmörkuðu samfélagi og/eða þjóð þá fullyrði ég að íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa um margt staðið sig afar vel við að varðveita erindi sitt og viðhalda áhuganum á íslensku sjónvarpsefni.

Nægir þar að nefna fádæma vinsældir gamanþáttaraðar Sjónvarps Símans um Iceguys sem og gott almennt áhorf á leiknar íslenskar seríur á öllum stöðvum. Sama má segja um góðar viðtökur við íslensku grín- og skemmtiefni, íslensku barnaefni, heimildaseríum og -myndum auk þess sem íslenskar kvikmyndir fá að jafnaði mikið áhorf þegar þær eru frumsýndar í sjónvarpi. Þá verður ekki horft framhjá því að áhugi og áhorf á íslenskt efni í línulegri dagskrá er ennþá það mikið að jafnaði að það á sér nær engar hliðstæður. Hvort sem um ræðir fréttir og fréttatengt efni, sjónvarpsviðburði á við beinar útsendingar frá menningar- eða íþróttviðburðum eða fasta vikulega þætti á borð við Landann, Vikuna, Kappsmál, Kviss og allt til menningarþátta á borð við Kiljuna þá er meðaláhorf langtum meira en þekkist annars staðar nú orðið. Svo ekki sé nú minnst á margfalda heimsmethafa í línulegu áhorfsmælingum, Söngvakeppnina og Skaupið. Sjónvarpið okkar sameinar nefnilega ennþá þjóðina þegar vel tekst til og mikið er undir. Megi svo vera áfram og um ókomna tíð.

Ég hef fundið og greint á eftirvæntingu og viðtökum að svo var enn og aftur á fyrsta degi ársins þegar allt bendir til að þjóðin hafi safnast saman – eins og stundum er sagt – til að horfa á fyrsta þáttinn um Vigdísi. En höfum þá hugfast að það er engan veginn sjálfgefið lengur, að slíku sjónvarpsviðburður og slíkt menningarframtak geti yfir höfuð orðið að veruleika. Til þess þarf skilning á hversu mikilvægt slíkt efni er fyrir land og þjóð, skilning á því hvað þarf til að það verði að veruleika og vilja til að gera það sem þarf til að hvetja til og stuðla að enn frekari framleiðslu á viðlíka gæðaefni og tryggja framtíð þess (annað nikk á ykkur kæra nýja ríkisstjórn).

Til hamingju Rakel, Ágústa, Björg, Hlynur, Tinna, Nína Dögg, Elín Sif og þið öll hjá Vesturporti fyrir afrekið Vigdísi. Megið þið og allt kraftaverkafólkið sem vinnið við íslenska kvikmyndagerð sem lengst halda áfram að búa til leikið íslenskt sjónvarpsefni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR