Lestin um HYGGE!: Fyndið léttmeti

Kolbeinn Rastrick fjallar um Hygge! eftir Dag Kára í Lestinni og segir hana mjög fyndna mynd sem sýni að ekkert sé óbærilegra í lífinu en að þurfa að tala og vera hreinskilin við fjölskyldu og ástvini.

Kolbeinn skrifar:

Hygge! er nýjasta mynd leikstjórans Dags Kára sem er hvað þekktastur fyrir myndirnar Nóa albínóa og Fúsa. Myndin er dönsk-íslensk framleiðsla en sögusviðið er Danmörk og leikararnir eru danskir.

Hygge! er endurgerð á hinni ítölsku mynd Perfect Strangers frá 2016. Hvorki meira né minna en 28 endurgerðir af þeirri mynd hafa verið framleiddar um allan heim. Þar á meðal hin íslenska Villibráð sem var frumsýnd í janúar á síðasta ári. Hver endurgerð nálgast söguna á sinn einstaka hátt en grunnhugmyndin er alltaf sú sama. Ein kvöldstund þar sem fólk, tengt sambands- eða fjölskylduböndum, hittist í matarboði í heimahúsi. Áður en langt er liðið á matarboðið stingur einn gesturinn upp á samkvæmisleik; Allir þurfa að leggja símann sinn á borðið. Í hvert skipti sem einhver fær tilkynningu þarf eigandi símans að lesa hana upp yfir borðið og ef hringt er í símann þarf að svara og kveikja á hátalaranum. Verður þessi leikur til þess að upp kemst um krassandi leyndarmál og fleira sem ekki allir við borðið vilja eða eiga að vita.

Í þessari dönsku endurgerð koma sjö einstaklingar saman. Húsráðendur eru sálfræðingurinn Helene og hinn moldríki tæknigúrú Peter en glæsivillan sem er sögusvið myndarinnar er sumarhús þeirra. Þrátt fyrir að þau eigi nóg af peningum er augljóst að hjónaband þeirra er frá öllum hliðum séð ekki til fyrirmyndar. Bróðir Helene, Fabian, mætir með manninum sínum, Ib, en þeir eru nýlega búnir að opna samband sitt þó Ib virðist ekkert allt of sáttur með það. Bróðir Peters, Nikolaj, mætir með nýju kærustunni sinni, Lauru, sem er komin 12 vikur á leið en Nikolaj vill síður en svo segja fjölskyldu sinni frá óléttunni. Að lokum er það Erica, en hún er kona Jespers, bróður Peters og Nikolajs. Erica mætir ein í matarboðið þar sem Jesper liggur á gjörgæsludeild í dái eftir bílslys sem Nikolaj var mögulega valdur að.

Hygge! er mjög fyndin mynd. Hún sækir í þann gjöfula brunn norrænnar gamankvikmyndagerðar, sem er að sýna hvað það er ekkert óbærilegra í lífinu en að þurfa að tala og vera hreinskilin við fjölskyldu og ástvini.

Strax í fyrsta atriði sjáum við Peter og Helene skiptast á athugasemdum sem löðra í eitri hjónabands sem er meiri maðkur en mysa. Á sama tíma snýst rifrildið einungis um að það hafi verið mistök að panta grísaskrokk og grilltein sem þau kunna hvorugt að setja upp. Eru aðstæðurnar því oft mjög fyndnar þó persónum myndarinnar finnist það síður en svo. Stendur sérstaklega upp úr í því samhengi þráðurinn í sögunni um hundaránið.

Það sem Hygge! býður upp á er þó aldrei meira en léttmeti. Það eru dramatísk augnablik en það er ekki nógu mikið í húfi. Það eru ákveðnir þræðir sem virðast ætla að fara í dramatískari áttir en á þá er klippt áður en þeir ná lengra og dýpra. Þar að auki er sérstaklega mikil synd að sumar persónurnar eru ekki að leyna neinu að því er virðist. Það sem er spennandi og skemmtilegt við þessa grunnhugmynd er að gægjast undir yfirborð persónanna og sjá hvaða leyndarmál þau eru að reyna að fela. Það að ein persónan sé “góð” og hafi ekkert að fela gerir rifrildið mun leiðingjarnara heldur en ef allir eru sekir um eitthvað. Það sem var svo dásamlegt við Villibráð til dæmis var að fylgjast með persónum sem virtust vera sakleysið uppmálað í sambandinu, koma seinna í myndinni upp um sig sem alveg jafn miklir svikahrappar og makar þeirra.

Þessi léttleiki kemur einnig niður á endinum. Hygge! endar tiltölulega vel fyrir sumar persónurnar og það er ekki hægt að segja að matarboðið hafi gjörbreytt lífi neinnar persónu sem var viðstödd. Það hefði verið mun áhrifaríkara að leyfa stærri og alvarlegri leyndarmálum að koma upp á yfirborðið og sýna svo hvernig persónurnar glíma við þau leyndarmál. Þess í stað heldur hún sig á glaðari nótum þar sem kvikmyndahúsagestir geta gengið ánægðir út.

Ef Villibráð var aðalrétturinn þá er Hygge! líkari forréttinum. Léttari og einfaldari. Að forréttinum loknum eru þó eflaust margir sem sitja eftir sólgnir í eitthvað þyngra og matarmeira.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR