spot_img

Fyrstu myndir úr KING & CONQUEROR

Fyrstu myndirnar úr þáttaröðinni King & Conqueror hafa verið birtar og má skoða hér. Þættirnir voru teknir upp hér á landi fyrr á árinu og verða sýndir á BBC á næsta ári.

Segir í kynningu um verkið:

King and Conqueror er saga um átök sem skópu framtíð lands og heimsálfu næstu þúsund ár, hvers rætur ná áratugi aftur í tímann og tengjast gegnum tvær valdamiklar fjölskyldur sem takast á um yfirráð í tveimur löndum með ólgandi hafi á milli. Örlögin höguðu því svo til að Haraldur Guðinason af Wessex og Vilhjálmur af Normandí, síðar kallaður Vilhjálmur sigursæli, tókust á í orrustunni við Hastings árið 1066, tveir bandamenn sem ásældust ekki völd yfir Bretlandi en fundu sig tilneydda, vegna aðstæðna og persónulegrar þráhyggju, að heyja stríð um bresku krúnuna.

Með helstu hlutverkin fara James Norton (Happy Valley) and Nikolaj Coster-Waldau (Game of Thrones). Baltasar Kormákur er yfirframleiðandi þáttanna, sem eru alls átta og leikstýrir einnig opnunarþættinum. Michael Robert Johnson skrifar handrit, en hann skrifaði meðal annars handritið að bíómyndinni Sherlock Holmes (2009) með Robert Downey jr. í aðalhlutverki.

Fjöldi íslenskra leikara kemur við sögu og má þar nefna Svein Geirsson, Björgvin Franz Gíslason, Þorstein Bachmann, Ingvar E. Sigurðsson og Svein Ólaf Gunnarsson sem leikur Harald harðráða.

Bergsteinn Björgúlfsson er kvikmyndatökustjóri, Margrét Einarsdóttir gerir búninga, Haukur Karlsson er brellumeistari (SFX) og Jörundur Rafn Arnarson hefur yfirumsjón með tölvubrellum (VFX) á tökustað. Auk þeirra komu fjöldi annarra Íslendinga að verkinu.

Ljósmyndirnar hér að neðan tók Lilja Jónsdóttir.

Haraldur Guðinason, jarl af Wessex (James Norton) | Mynd: Lilja Jóns.
Vilhjálmur hertogi af Normandí (Nikolaj Coster-Waldau) í orrustunni við Hastings | Mynd. Lilja Jóns.
Haraldur Guðinason, jarl af Wessex (James Norton) í orrustunni við Hastings | Mynd: Lilja Jóns.
Vilhjálmur og Haraldur | Mynd: Lilja Jóns.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR