Ný stafræn endurgerð SÖLKU VÖLKU í Bíótekinu

Nýtt sýningareintak af Sölku Völku (1954) verður á dagskrá Bíóteksins í Bíó Paradís þann 8. desember. Einnig verða á dagskrá The Kid (1921) eftir Chaplin og þýska kvikmyndin Gesetze der Liebe (1927) eftir Magnus Hirschfeld.

Dagskráin 8. desember er sem hér segir:

15:00
Salka Valka (1954)
Hér er á ferðinni ný endurgerð frá sænska Kvikmyndasafninu á kvikmyndinni Salka Valka frá 1954 í leikstjórn Arne Mattsson. Myndin er byggð á samnefndu skáldverki nóbelsskáldsins Halldórs Laxness og fjallar um uppvöxt Sölku Völku í íslensku sjávarplássi þar sem fátækt og basl ræður ríkjum. Sænska kvikmyndasafnið gerði myndina upp en Kvikmyndasafnið gerir hér nýtt sýningareintak með upprunalegu hljóðrásinni sem gerð var fyrir íslenska áhorfendur en þar fer Laxness sjálfur með lokaorð myndarinnar. Hér fá gestir Bíóteksins því tækifæri til að sjá myndina í bestu mögulegu gæðum og auk þess með íslenskum texta.

17:30
The Kid (1921)
Hin undurfagra saga um yfirgefið barn sem elst upp hjá flækingi hrífur alla sem hana sjá. Þegar yfirvöld vilja taka barnið og koma því fyrir á munaðarleysingjahæli þarf flækingurinn að láta til sín taka. Fegurð myndarinnar liggur sérstaklega í sambandi flækingsins og barnsins sem tjá gleði, sorg og söknuð á einstakan máta. Myndin heldur áfram að heilla unga sem aldna rúmlega 100 árum eftir að hún kom út í einfaldleika sínum og fallegri sögu sem skilur engan eftir ósnortinn.

19:00 – Hinsegin bíó
Gesetze der Liebe (1927) – Lögmál ástarinnar
Ný stórmerkileg stafræn endurgerð frá kvikmyndasafninu í München eftir Magnus Hirschfeld. Hann var þýskur vísindamaður og kynjafræðingur og stofnaði meðal annars fyrstu samtök í heimi árið 1897 sem börðust fyrir réttindum hinsegin fólks. Árið 1919 kom út þögul kvikmynd sem Hirschfeld fjármagnaði, skrifaði og lék í sem heitir Anders als die anderen og er ein fyrsta leikna kvikmynd sögunnar þar sem fjallað er um málefni samkynhneigðra af hluttekningu og samkennd. Kvikmyndin Gesetze der Liebe er bæði heimildamynd og leikin mynd. Í fyrri hlutanum sjáum við vísindalega nálgun dr. Hirschfeld á hinseginleikann og kynlíf. Seinni hluti myndarinnar er síðan endurklippt útgáfa af leiknu myndinni Anders als die anderen. Kvikmyndin telst stórkostlegt brautryðjandaverk á heimsvísu en var því miður afar langt á undan sinni samtíð.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR