Sýningar hefjast á heimildamyndinni THE DAY ICELAND STOOD STILL

Bíó Paradís sýnir heimildamyndina The Day Iceland Stood Still (Dagurinn þegar Ísland stöðvaðist) í leikstjórn Pamelu Hogan. Myndin er framleidd af Hrafnhildi Gunnarsdóttur.

Segir í kynningu:

Í vitund heimsins tengja menn Ísland einkum við óvenjulega náttúrufegurð, jökla, fossa og eldfjöll en einnig fyrir það að hafa skipað sér í fremstu röð þjóða í jafnréttismálum, ekki síst hvað varðar réttindi kvenna. Hvernig tókst Íslendingum það sem engri stórþjóð hefur í raun tekist?

Lítum til 24. október 1975, dagsins þegar 90% íslenskra kvenna lýstu því yfir að nú hefðu þær fengið nóg af þeim karllæga yfirgangi sem skammtaði þeim kjör. Þær höfðu þá lengi bent á það að þær ynnu í raun tvöfaldan vinnudag, á vinnustað og á heimilum sínum, og fengju ekki greidd sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu.

Þennan októberdag lögðu þær niður störf, fylktu liði á einn fjölmennasta útifund Íslandssögunnar og samfélagið sat eftir lamað. Þessi áhrifamikla saga er nú sögð í fyrsta sinn á hvíta tjaldinu í leiftrandi viðtölum við það fólk sem skipulagði Kvennafrídaginn 1975 og í litríkum teiknimyndabrotum sem lýsa vel áhrifamætti þessa dags.

Þvert á pólitíska flokkadrætti kviknaði samstaða þennan dag og hann átti eftir að marka stórkostlegar breytingar í samfélagi framtíðarinnar. Þessi heillandi saga er í senn ögrandi og fyndin og lýsir vel mikilvægi þess að takast á við niðurlægingu og óréttlæti hvar sem kúgunaröflin birtast í von um jöfnuð og mannúð.

Frumsamin tónlist er eftir Margréti Rán og lag í lok kvikmyndarinnar er eftir Björk. Myndin er á ensku og íslensku.

Kvikmyndin var frumsýnd á Hot Docs heimildamyndahátíðinni í Toronto síðastliðið vor. Hún hefur síðan farið á fjölmargar hátíðir og hlaut á dögunum áhorfendaverðlaunin í Mind the Gap flokknum á Mill Valley International Film Festival.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR