Lilja Ingólfsdóttir: Norski kvikmyndabransinn ekki eins harður og sá íslenski

Lilja Ingólfsdóttir er leikstjóri og handritshöfundur Elskling sem nú er sýnd í Bíó Paradís. Lilja er búsett í Noregi en stödd hér á landi vegna frumsýningar myndarinnar á RIFF. Hún var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 þar sem hún sagði frá myndinni og rótunum á Íslandi.

Talar íslensku við bróður sinn

Lilja er fædd í Noregi en flutti ung til Íslands og var í leikskóla og síðan í Vesturbæjarskóla. Íslenska var því fyrsta tungumálið sem hún lærði. Móðir hennar er norsk en faðir hennar var Ingólfur Margeirsson rithöfundur og fjölmiðlamaður.

Níu ára gömul flutti Lilja til Noregs og hefur verið búsett þar síðan. Hún hefur lagt sig fram við að halda tungumálinu við en faðir hennar talaði við hana á norsku svo það gat verið erfitt. „En ég er með bróður á Íslandi sem ég tala íslensku við,“ segir Lilja.

„Það væri gaman ef hann væri á lífi í dag“

Foreldrar Lilju skrifuðu bæði og hún segir að eiginlega öll stórfjölskyldan samanstandi af rithöfundum og blaðamönnum. Faðir hennar var í kvikmyndanámi í Svíþjóð þegar hann kynntist móður hennar. „Hún vildi vera leikkona en hann vildi vera leikstjóri,“ segir Lilja. „Svo voru þau alltaf blaðamenn.“

Faðir Lilju hvatti hana mikið áfram í kvikmyndagerð og sagðist hlakka til að hún sýndi mynd í fullri lengd á Íslandi. „Það væri gaman ef hann væri á lífi í dag,“ segir hún en Ingólfur lést árið 2011.

Erfitt fyrir konur að fá styrki fyrir myndum um konur

Hún lærði í London Film School og fór þaðan í Famu í Tékklandi. Eftir það gerði hún margar stuttmyndir og hefur kennt í kvikmyndaskólanum, eignast fjögur börn og skrifað nokkur handrit að kvikmyndum í fullri lengd en það hefur verið erfitt að fá styrki til að gera myndir. Hún segir að á tímabili hafi verið sérstök þraut fyrir konur, sem voru að gera myndir með konum í aðalhlutverkum, að fá styrki. „En ég er mjög glöð að það tókst.“

Góð stemning og hjálpsemi í norska kvikmyndabransanum

Hún segir ljóst að kvikmyndabransinn á Íslandi sé harður og að hann sé aðgengilegri í Noregi að einhverju leyti. Það skýrist meðal annars af ákveðinni viðhorfsbreytingu sem hafi átt sér stað síðustu ár í bransanum þar. „Fólk er að deila og hjálpa hvert öðru. Það er ekki eins mikil harka og samkeppni eins og var,“ segir hún. „Það er góð stemning í Noregi og hefur verið í mörg ár.“

Hana langar samt mikið að kynnast kvikmyndagerðarbransanum hér betur. „Mig dreymir alltaf um að gera mynd á Íslandi. Jónas bróðir minn, sem er framleiðandi, segir alltaf: Núna, Lilja, gerum við eitthvað saman.“

Vildi kafa inn í sambönd og hvers vegna þau geta verið svona erfið

Myndin fjallar um hjónaband sem er að fara í vaskinn og persónulegt ferðalag Maríu sem hún er í kjölfarið knúin til að fara í. Þá áttar hún sig á sjálfri sér og hegðunarmynstri sem hefur fylgt henni úr æsku vegna meðal annars samskipta við foreldra. Lilja segist hafa viljað fjalla um sambönd, hve erfið þau geti verið og hvað valdi. „Í Noregi er 50 prósent skilnaðartíðni. Ég vildi gera mynd til að kanna þessa krísu í samlífi á djúpan hátt, og hvað er í gangi.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR