spot_img

Skrifar bók um upphafsár Sjónvarpsins, óskar eftir efni

Björn G. Björnsson leikmyndahönnuður undirbýr nú bók þar sem hann rifjar upp minningar sínar frá fyrstu árum Sjónvarpsins (nú RÚV), en hann var meðal fyrstu starfsmanna þess.

Í bókinni verða endurminningar Björns frá fyrstu árum sjónvarpsins á Laugavegi 176, frá upphafi og fram undir 1980.

“Þetta er ekki saga Ríkisútvarpsins heldur minningarbrot mín og stemmingar frá dagskrárgerðinni eins og ég upplifði þessi mögnuðu ár, þegar litlum hópi ungs fólks var falið að búa til sjónvarp á Íslandi – með fulltingi nokkurra fullorðinna yfirmanna,” segir Björn.

Bókin verður létt og myndrík og stiklar á sögunni í tímaröð.

Savanna tríóið horfir á sjálft sig í fyrstu útsendingu sjónvarpsins 30. september 1966. Frá vinstri: Troels Bendtsen, Björn G. Björnsson og Þórir Baldursson.

“Ég var meðal 30 fyrstu starfsmanna sjónvarpsins, ráðinn þangað sem teiknari 1. ágúst 1966 þegar tveir mánuðir voru í fyrstu útsendingu. Sem leikmyndateiknari tók ég virkan þátt í dagskrárgerðinni, hvort sem um var að ræða fréttir, umræðuþætti eða skemmtiefni – allir þurftu sína leikmynd og sína umgjörð.

Ég hef haldið til haga ýmum heimildum frá þessum tíma og þegar ég setti upp 50 ára afmælissýningu sjónvarpsins 2016 studdist ég við þær og ljósmyndasafn sjónvarpsins, og svo verður með bókina nú,” bætir Björn við.

Hann hyggst leita til fyrrverandi starfsmanna Sjónvarpsins og margra fleirri um aðstoð, upplýsingar, ljósmyndir og skemmtilegar minningar. Hugmyndin er að reyna að ná til sem flestra sem störfuðu hjá Sjónvarpinu fyrstu tíu árin, svo og þáttagerðarmanna og annarra sem settu svip á dagskrána og hafa sögu að segja.

Hið íslenska bókmenntafélag mun gefa bókina út. Ráðgert er að bókin komi út á ársbyrjun 2026, en það ár verður sjónvarpið 60 ára.

Sjá ljósmyndir frá upphafsárum Sjónvarpsins hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR