Ásgeir segir:
Karlovy Vary var næsta stopp á eftir Cannes fyrir Ljósbrot Rúnars Rúnarssonar, sem hafði opnað Un Certain regard flokkinn á frönsku rívíerunni. Snemma í myndinni varð mér hugsað til þess að síðast þegar ég fór í gegnum Hvalfjarðargöngin hafði bílstjórinn á orði að þetta væru einhver óöruggustu göng Evrópu – og hvað haldiði, myndin hverfist um sprengingu í Hvalfjarðargöngunum. Þetta er samt engin stórslysamynd, hún snýst fyrst og fremst um þá sem eftir lifa.
Veröld listnemans Unu og vina hennar fer á hliðina við þessar fréttir og Hörpunni er breytt í neyðarmiðstöð þar sem aðstandendur bíða frétta af nákomnum og þiggja áfallahjálp. Svona slys hefur vissulega ekki gerst í Hvalfjarðargöngunum, en prófið bara að máta viðburðina við álíka harmleiki í nýlegri Íslandssögu. Þegar fréttirnar reynast vondar kemur svo Írinn upp í ungmennunum og þau fara beinustu leið á barinn.
Myndin gerist öll á einum sólarhring og er ekki nema 80 mínútna löng – það er raunar dálítið eins og Rúnari hafi tekist að finna löngu útgáfuna af stuttmyndunum sem hann sló í gegn með, myndum á borð við Smáfugla og Önnu. Hann reyndi áður hálfpartinn að endurgera Smáfugla með því að nota efnivið myndarinnar sem lokakaflann í Þröstum – og niðurstaðan varð hans sísta mynd til þessa. Hér reynir hann frekar að fanga þessar sömu tilfinningar – og gefur þeim meira andrými, en ekki endilega neitt mikið meira plott, ef ég ætlaði að endursegja söguþráðinn allan væri ég hálfnaður þegar ég væri búinn að lýsa fyrstu tíu mínútunum.
En veröld Unu fer ekki bara á hvolf af því kærastinn hennar ferst í slysinu – heldur líka af því hann var á leiðinni vestur á land til að segja sinni gömlu kærustu upp. Hún var ennþá bara laumukærasta, eitthvað sem mun núna aldrei breytast. Vinir hans að vestan koma, sameiginlegur vinur þeirra Unu er límið á milli þeirra, annar strákur að vestan sem flutti í bæinn, og saman syrgja þau á barnum og í heimapartíi og undir niðri liggur spennan. Spennan á milli stúlknana tveggja sem elskuðu hann, þótt aðeins önnur viti það, spennan á milli miðbæjarkrakka í listaskólanum og dreifbýliskrakka í bæjarheimsókn, spenna vegna sorgarinnar sem þeim finnst þau hafa mismikinn rétt á. Hver missti mest, hver má syrgja mest? Hver má öskurgráta, hver má láta faðma sig óhóflega mikið?
Fyrir 20 eða 40 árum hefði svona mynd alltaf endað með slagsmálum eða einhverri annars konar bældri útrás – en þetta er ný kynslóð. Mýkri kynslóð. Kynslóð sem lærði snemma að faðma og tala um tilfinningar. Á milli þess sem hún dansar við Hatara, lag sem á sinn öfugsnúna hátt nær að fanga anda þessarar nætur.
Myndin hefst í lok sumarnætur og líkur þar líka, Rúnari tekst að finna ljóðrænuna í sumarnóttinni – hann rammar ungmennin inn í þessari björtu eilífðarnótt og leyfir okkur að skynja tilfinninguna í andlitunum. Andlitum sem eru að uppgötva dauðann í fyrsta sinn fyrir alvöru. Andlitum á borð við Elínu Hall, sem er kyngimögnuð sem Una, sem afskaplega kvenleg og næm strákastelpa.
Listamaðurinn Kolbeinn Hugi gerði stundum listgjörning við Hallgrímskirkju, gjörning sem Rúnar fær lánaðan og lætur Unu gera með Klöru, hinni kærustunni, um miðja mynd. Gjörning sem á sinn hátt virðist einnig hafa ratað í bók Steinars Braga, Truflunina (finnið hana og skoðið kápuna betur). Þessi gjörningur tengir þær á einhvern göldróttan hátt og þegar á líður verða óræð tengsl þeirra þessa nótt kjarni myndarinnar.
Það var raunar einkennilegt að horfa á þessa mynd umkringdur erlendum vinum, að velta fyrir sér hvað þau hafi haldið um furðufatakrakkana sem voru að dimmitera í sorginni miðri, eitthvað sem aðalpersónurnar voru sjálfar að gera fáeinum árum áður, eða hvort þau hafi náð margræðninni við að láta þau dansa við Hatrið mun sigra.