Sundra býður uppá sjálfvirka textun á íslensku með viðunandi árangri

Ný íslensk þjónusta, Sundra, umbreytir
hljóðskrám á íslensku í tímasett textaskjöl.

Þessi þjónusta, textun á töluðu efni, hefur verið hluti af ýmsum klippiforritum um allnokkuð skeið, en ekki virkað á íslensku. Undanfarið hafa komið fram erlendir aðilar sem bjóða uppá sambærilega þjónustu og þar á meðal á íslensku, til dæmis TurboScribe og Cockatoo, en íslenskunni er töluvert ábótavant þar, auk þess sem ekki er boðið upp á tímasetningar.

Annað íslenskt fyrirtæki, Tiro talgreinir, hefur boðið uppá þessa þjónustu í einhvern tíma en býður ekki uppá tímasett skjöl, aðeins talgreiningu. Árangur er í áttina en nokkuð vantar upp á.

Líklegt má telja að kvikmynda- og sjónvarpsbransinn taki þessu vel, enda er textun orðin afar algeng og einnig hluti af afhendingarkröfum varðandi efni í sjónvarp. Sundra segist bjóða uppá um 90% árangur. Eftir smá prófun getur Klapptré vottað að það er ekki fjarri lagi. Til að gera breytingar á skjölum (sem er óhjákvæmilegt) þarf að hlaða skránni niður og færa í textaforrit eða klippiforrit þar sem hægt er að vinna með textann.

Sundra segist vera að vinna í því að þýða einnig textann og mun sú lausn vera væntanleg á næstu vikum. Þá er einnig verið að vinna í sérstakri lausn sem textar og þýðir myndbandsefni og gefur svo aðgang að textakerfi sem aðstoðar við að yfirfara og lagfæra allar þýðingar. Von er á frekari upplýsingum um þetta innan skamms.

Sjá Sundra hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR