Launasjóður kvikmyndahöfunda tekur til starfa frá og með næsta ári

Alþingi samþykkt í dag breytingu á lögum nr 57/2009 um listamannalaun sem meðal annars fela í sér nýjan sjóð, Launasjóð kvikmyndahöfunda. 

Ýmsar aðrar breytingar voru gerðar á lögum um listamannalaun og má lesa um þær hér.

Segir um launasjóð kvikmyndahöfunda:

Launasjóður kvikmyndahöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 100 mánaðarlauna. Þriggja manna nefnd sem ráðherra skipar árlega úthlutar fé úr launasjóði kvikmyndahöfunda. Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda skulu hvor um sig tilnefna þrjá nefndarmenn. Ráðherra skipar þrjá aðalmenn og þrjá varamenn út frá tilnefningunum. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

Í greinargerð kemur fram að starfslaun eru nú 538.000 kr. Um verktakagreiðslur er að ræða og þurfa listamenn því sjálfir að standa skil á opinberum gjöldum og lífeyrisgreiðslum vegna þeirra. Frá og með næsta ári verða starfslaun kvikmyndahöfunda 60 mánuðir, en eftir það 100 mánuðir.

Leikstjórar og handritshöfundar geta sótt um úthlutun úr launasjóði kvikmyndahöfunda. Stofnun sjóðsins er í samræmi við c-lið aðgerðar 9 í kvikmyndastefnu til ársins 2030.

Þriggja manna sértæk úthlutunarnefnd mun úthluta fé úr sjóðnum líkt og á við um aðra sérgreinda sjóði samkvæmt lögunum. Félag leikskálda og handritshöfunda annars vegar og Samtök kvikmyndaleikstjóra hins vegar tilnefna í úthlutunarnefndina. Gert er ráð fyrir að hvor aðili um sig tilnefni þrjá fulltrúa og að ráðherra skipi þrjá aðalmenn og þrjá varamenn út frá tilnefningunum, að teknu tilliti til óska tilnefningaraðilanna þar um eins og við verður komið. Úthlutunarnefndin skipti sjálf með sér verkum, líkt og við á um aðrar úthlutunarnefndir starfslauna. Skv. 1. mgr. 13. gr. laganna er ráðherra heimilt að kveða nánar á um tilhögun tilnefninga í reglugerð.

Lesa má ný lög og greinargerð hér að neðan.

HEIMILDAlþingi
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR