Diljá Pétursdóttir Eurovisionfari hefur verið ráðin í annað aðalhlutverk þáttaraðarinnar Gestir sem tekin verður upp í sumar og sýnd í Sjónvarpi Símans. Ásgeir Sigurðsson (Harmur) er höfundur og fer með annað aðalhlutverkið.
Ásgeir segir þættina vinna með „Body Switch Comedy“ þemað líkt og sjá má í kvikmyndinni Freaky Friday þar sem aðalpersónur víxla líkömum. Þættirnir fjalla um Adam og Eydísi sem standa bæði á krossgötum í lífinu, þau hittast í gegnum stefnumótaforrit og þegar þau vakna morgunin eftir kynnin hafa þau víxlað líkömum, án útskýringar og þurfa að finna leið til að skipta til baka áður en það verður of seint.
Ásgeir segist vilja gera þætti sem höfði til ungs fólks, til þess að gefa þeim rödd og láta vita að það er allt í lagi að vera týndur um skeið, eins og aðal söguhetjurnar í Gestum. Hann segir þættina munu snerta á viðfangsefnum sem hafa verið á brennidepli í samfélaginu undanfarið, til dæmis kynjahlutverkum, tækni, kynnum og andlegri líðan.