Tökum er að ljúka á þáttaröðinni Heima er best í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. Verkefnið hefur hlotið 500 þúsund evra styrk frá Creative Europe, kvikmynda- og sjónvarpsáætlun ESB, sem samsvarar um 73 milljónum íslenskra króna.
Heima er best er sex þátta sería sem sýnd verður í sjónvarpi Símans haustið 2023. Þetta er saga af átökum fjölskyldu í íslenskum samtíma. Þegar þrjú miðaldra systkini standa frammi fyrir því að erfa hvert sinn hlut í eignum foreldra sinna, vinsæla hvalaskoðunarfyrirtækinu og hlýlega sumarhúsinu, sem foreldrar þeirra byggðu frá grunni, skapast áður óþekktar aðstæður sem þarf að ná sátt um. En þegar taka á sameiginlegar ákvarðanir um eignir sem systkinin þrjú telja sig öll eiga tilkall til á afar ólíkum forsendum, fara vandamálin fljótt að segja til sín og hlutir að koma upp á yfirborðið sem eru líklegri til að sundra í stað þess að sameina.
Handritið er skrifað af Tyrfingi Tyrfingssyni, Ottó Geir Borg og Tinnu Hrafnsdóttur sem jafnframt á hugmyndina og leikstýrir. Framleiðsla er í höndum Kiddu Rokk, Guðnýjar Guðjónsdóttur og Tinnu Hrafnsdóttur undir merkjum Polarama og Freyju Filmwork.
Verkefnið hefur einnig hlotið styrk frá Kvikmyndasjóði, alls 77,3 milljónir króna. Heildarkostnaður nemur rúmum 600 milljónum króna.
Meðframleiðandi er belgíska fyrirtækið Lunanime en um alþjóðlega dreifingu sjá dreifingarfyrirtækin Red Arrow og Lumiere. Sjónvarpsstöðin Yle hefur þegar tryggt sér sýningarréttinn í Finnlandi.
Aðalhlutverkið er í höndum Hönnu Maríu Karlsdóttur en meðal annara leikara eru Pálmi Gestsson, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Vignir Rafn Valþórsson, Tinna Hrafnsdóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Oddur Júlíusson, Sveinn Geirsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og fleiri.