Skemmtileg og fyndin en dálítið sundurlaus skrifar Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðið um Abbababb! eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur.
Jóna skrifar:
Regína (2001) eftir Maríu Sigurðardóttur hefur gjarnan verið skilgreind sem fyrsta íslenska dans- og söngvamyndin en síðan þá hefur enginn íslenskur leikstjóri þorað að reyna við kvikmyndagreinina fyrr en nú.
Dans- og söngvamyndin Abbababb! er fyrsta kvikmynd Nönnu Kristínar í fullri lengd en hún á að baki glæstan feril sem leikkona og handritshöfundur og hefur leikstýrt bæði sjónvarpsþáttum og stuttmyndum. Nanna leikstýrði tveimur nýlegum íslenskum sjónvarpsþáttaseríum, Ráðherranum (2020) og Pabbahelgum (2019), sem hún hlaut mikið og verðskuldað lof fyrir.
Abbababb! er byggð á samnefndum söngleik sem aftur var byggður á hljómplötu Dr. Gunna með sama nafni. Söngleikurinn var sýndur í Hafnarfjarðarleikhúsinu árið 2007 og hlaut Grímuverðlaunin sama ár fyrir bestu barnasýninguna.
Abbababb! er dans- og söngvamynd fyrir alla fjölskylduna og segir frá þremur vinum sem saman mynda hljómsveitina Rauðu hauskúpuna, þeim Aroni (Óttar Kjerulf Þorvarðarson), Hönnu (Ísabella Jónatansdóttir) og Óla (Vilhjálmur Árni Sigurðsson), sem takast saman á við dularfullt mál. Kvikmyndin fer öll fram í skólanum þeirra og gerist á einum degi. Vinirnir komast að því að einhver í skólanum ætli sér að leggja skólann í rúst og eyðileggja þannig fyrir nemendum lokaballið sem halda á um kvöldið þar sem Rauða hauskúpan á að spila. Þau hafa tólf klukkustundir til að finna út úr því hvert illmennið er og koma þannig í veg fyrir þessi ljótu áform en enski titill myndarinnar er einmitt 12 Hours to Destruction eða 12 klukkustundir til eyðileggingar.
Aðalgagnrýni dans- og söngvamynda hefur beinst að tengslum greinarinnar við hið óraunverulega eða ímyndaða og ofurárherslu hennar á paranir og tónlist í stað söguframvindu. Þessi gagnrýni á kvikmyndagreinina á mjög vel við um Abbababb! Söguþráðurinn er frekar ómerkilegur en þess í stað er lögð áhersla á að skapa töfraheim sem gerist í skóla á níunda áratugnum. Það er greinilegt að mikið var lagt í búningana (Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir) og leikmyndina (Sigríður Björnsdóttir). Nanna Kristín skrúfar allt í botn til þess að skapa þessa töfrandi myndheild kvikmyndarinnar en markmið myndarinnar er eflaust að svara þrám áhorfenda til þess að flýja raunveruleikann.
Eitt atriði í myndinni stendur upp úr en það sýnir m.a. áhrifamátt búninga í kvikmyndum en það er atriðið í sundlauginni. Þar standa nokkrir litlir drengir við bakkann með sundhettur og uppblásinn björgunarhring. Litli pönkarinn í hópnum getur ekki verið eins og restin, hann fær því dökkan björgunarhring og leðurhúfu.
Söngvamyndir má ekki greina eins og aðrar kvikmyndir því í greininni er verið að vinna með aðrar frásagnarleiðir eins og t.d. paranir eða hliðstæður. Tökutækninni er ætlað að mynda paranir með því að sýna þessar andstæður hlið við hlið að gera sömu hlutina eða í sama rýminu sem neyðir áhorfandann til þess að bera þessar andstæðu persónur, yfirleitt sína af hvoru kyni, saman. Markmiðið er að færa þessar andstæðu persónur hvora nær annarri og erkilausnin er svo ástarsamband. Í Abbababb! er að finna frábært dæmi um algjörar andstæður sem ná saman í lokin, það eru Benni og systa sjóræningi sem Jón Arnór Pétursson og Vala Sigurðardóttir Snædal leika með stæl en allir aðalleikarar kvikmyndarinnar leysa sín atriði vel. Benni er glimmeraður diskógæi en systa sjóræningi er klædd öllu svörtu enda pönkari. Undir lok myndarinnar ná andstæðurnar saman og sækja innblástur hvor til annarrar í klæðnaði.
Þessi gríðarlega áhersla á myndheildina er hins vegar á kostnað söguframvindunnar, myndin er dálítið sundurlaus og hrynjandin í klippingunni klaufaleg. Kvikmyndin líkist þannig tónlistarmyndbandi eða auglýsingu en þar er myndheildin og tónlistin það eina sem raunverulegu máli skiptir. Abbababb! er að því sögðu eins og samansafn af fallegum tónlistarmyndböndum og auglýsingum. Þetta kann að vera eitthvað sem heillar börn og unglinga nútímans enda mörg hver þrælvön og æfð í að horfa á mörg stutt dans- og söngvamyndbönd á TikTok og öðrum vefmiðlum.
Abbababb! er skemmtileg og fyndin mynd fyrir börn jafnt sem fullorðna og vinnur eflaust mörg nostalgíustig hjá eldri áhorfendum sem muna eftir þessu litríka tímabili sem birtist á skjánum þó það sé í aðeins ýktari mynd.