Norrænir kvikmyndadagar í Lübeck fara fram í 64. sinn dagana 2.-6. nóvember. Hátíðin mun sýna fjölda mynda Friðriks Þórs Friðrikssonar í ár og veita honum sérstök heiðursverðlaun.
„Friðrik hefur framar flestum sett svip sinn á íslenska kvikmyndagerð. Næstum allar myndir hans hafa verið sýndar á Norrænum kvikmyndadögum og í gegnum tíðina hefur hann unnið til þrennra verðlauna í ýmsum flokkum hátíðarinnar. Við erum stolt og ánægð að bjóða hann velkominn aftur til Lübeck og veita honum heiðursverðlaun,“ segir Thomas Hailer, listrænn stjórnandi Norrænna kvikmyndadaga í Lübeck.
Sýndar verða fimm mynda Friðriks, Börn náttúrunnar (1992), Bíódagar (1994), Cold Fever (1995), Englar alheimsins (2000) og Mamma Gógó (2010).