Lestin um VITJANIR: Ekta íslensk sápuópera

Sjónvarpsþættirnir Vitjanir bjóða upp á mikið melódrama, gífurlega vel útfært en stundum ofaukið, segir Salvör Bergmann gagnrýnandi Lestarinnar.

Salvör skrifar:

Áttundi og síðasti þáttur Vitjana datt í loftið síðasta mánudag en um er að ræða vandaða og hádramatíska þáttaröð úr smiðju Glassriver og Askja films sem sýnd var á RÚV. Þættirnir skarta ekki aðeins konum í helstu aðalhlutverkum heldur ráða konur einnig ríkjum á bakvið tjöldin, þar sem Eva Sigurðardóttir leikstýrir og skrifar einnig handritið ásamt þeim Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur, en þær tvær leika einnig veigamikil hlutverk í þáttunum. Þetta kvenlega þríeyki sem stendur á bakvið gerð þáttanna endurspeglast síðan í innihaldi þeirra. Kolbrún og Vala leika þær Hönnu og Hugrúnu, samstarfskonur Kristínar á Heilsugæslunni í Hólmafirði, en Kristín, leikin af Söru Dögg Ásgeirsdóttur, byrjar að starfa þar eftir að maðurinn hennar heldur framhjá henni og hún flyst með unglingsdóttur sinni úr Reykjavík aftur á heimaslóðir. Þegar þangað er komið endurnýja mæðgurnar kynni sín við móður Kristínar, en þar með hefur myndast annað kvenlegt þríeyki þar sem þrjár kynslóðir kvenna eru sameinaðar á ný – og ekki veitir af þar sem við tekur hrikalega skrautlegt melódrama sem þætti heilmikið fyrir hvaða fjölskyldu sem er.

Haft hefur verið eftir handritshöfundunum að sagan hafi tekið sex ár í vinnslu þar til hún var tilbúin til framleiðslu. Þessu trúi ég mætavel þar sem hver krókur og kimi framvindunnar tengist saman í flókinn vef og allt margvíslega dramað sem á sér stað í skáldaða smábænum Hólmafirði er samofið á þematískan hátt. Helsta þemað sem við stöndum frammi fyrir er samband fortíðar og nútíðar, en þegar aðalpersónan flytur í gamla bæinn sinn þarf hún svo sannarlega að horfast í augu við fortíðina á fleiri en einn veg. Draugarnir sem miðillinn móðir hennar á í samskiptum við eru bókstaflegir tákngervingar þessarar fortíðar á meðan viðvera þeirra fer einnig að tákna sambandið sem fólkið í bænum á við eigin fortíð og hvernig það samband hefur áframhaldandi áhrif á kynslóðir þeirra sem eftir lifa. Því mætti segja að þó að fjölmargar litríkar sögupersónur deili skjánum í Vitjunum, þá sé aðalpersónan fortíðin sjálf sem ekki einungis mótar okkur öll heldur stjórnar einnig hegðun okkar og samböndum. Þetta kemur til dæmis fram í því hvernig unglingsdóttir Kristínar, Lilja, erfir skyggnigáfu ömmu sinnar en einnig hvernig Siggi, eiginmaður Hönnu, reynist ofbeldismaður, en í ljós kemur að honum var misþyrmt af eigin móður í æsku. Blessanir jafnt sem bölvanir eru þannig hvoru tveggja sýndar sem eitthvað sem gengur í erfðir og lítil hvít lygi kynslóðarinnar sem á undan kom getur grasserast í gegnum áratugina svo úr verði gríðarleg flækja sem að endingu virðist ómögulegt að leysa úr fyrir þá kynslóð sem á eftir kemur.

Hvernig þættirnir fjalla um þessi áhrifamiklu tengsl fortíðar og nútíðar er þannig einnig táknað með sambandinu milli kynslóðanna sjálfra, en það samband virðist við upphaf þáttanna einkennast af togstreitu. Sú togstreita kemur síðan fram á ýmsa vegu, til dæmis milli dulhyggju og rökhyggju, en Kristín trúir ekki á skyggnigáfu móður sinnar frekar en að móðir hennar trúir á ágæti lyfjagjafar gagnvart eigin geðhvarfasýki. Draugar, geðsjúkdómar, framhjáhöld, leyndarmál og heimilisofbeldi teljast aðeins til nokkurra af þeim fjölmörgu viðföngum samvinnandi söguþráða hjá fólkinu á Hólmafirði, en hér er sannarlega um að ræða ekta íslenska sápuóperu.

Eflaust eru margir sem munu einfaldlega hafa gaman af þessu gífurlega framboði af melódrama, en ef öðrum þykir því ofaukið þá skal hafa í huga að sé nánar rýnt hvert tilfelli fyrir sig kemur í ljós að allar þessar smásögur tákna í raun sömu, endurteknu þemun. Handritið reynist þannig gífurlega vel útfært, en persónulega þótti mér því stundum ofaukið og skal ég taka dæmi þeirri undarlegu staðhæfingu til stuðnings. Í fimmta þætti fer dularfullur sjúkdómur að herja á starfsmenn fiskivinnslu í bæjarfélaginu. Sjúkdómurinn reynist ekki vera smitandi eins og fyrst er talið heldur er um að ræða bakteríusýkingu vegna þess hversu gamlar og ryðgaðar pípulagnirnar eru í því húsnæði sem erlenda vinnuaflið deilir. Ef krafsað er undir yfirborð þess sem er að gerast á skjánum má sjá hvernig hægt er að lesa úr þessari hliðarsögu sama þema og gert hefur verið grein fyrir; hvernig fortíðin mun að endingu bitna á þeim sem lifa í nútíðinni, sé ekki tekist á við hana og hreinsað til í lögnunum. Þegar unnið er að handriti í sex ár þá gæti það því hugsast að höfundar þáttanna, færir sem þeir eru, hafi mögulega gleymt sér í að spinna þennan margslungna vef einum of vandlega. Fyrir vikið gleymist persónusköpun Kristínar helst til mikið um miðbik þáttanna og aðalsöguþráðurinn situr á hakanum á meðan fjöldinn allur af útúrdúrum veldur því að sagan fellur um stund í gryfju endurtekningar á sínum helstu áherslum. Þrátt fyrir þessar krókaleiðir þá er áhorfandinn sannarlega verðlaunaður fyrir að halda áfram að horfa og eru síðustu þrír þættirnir einstaklega þéttir þar sem leyst er úr hnútunum á áhrifaríkan hátt.

Eftir því sem leið að endalokum sápuóperunnar á Hólmafirði lætur hins vegar sá möguleiki á sér kræla að hnútarnir hafi kannski ekki verið svona flóknir eftir allt saman. Látin systir Kristínar, hún Margrét, reynir til að mynda frá fyrsta þætti að fá að koma til systur sinnar skilaboðum að handan í gegnum móður þeirra Jóhönnu. Vegna þess hversu mikill efasemdarpési Kristín er þegar kemur að öllu yfirnáttúrulegu segir Jóhanna við vofu dóttur sinnar í sífellu að Kristín vilji einfaldlega ekki hlusta. Síðan kemur það smám saman í ljós að Jóhanna sé í raun sú sem ekki vill koma skilaboðunum áleiðis, þar sem það myndi þýða að Margrét hefði ekki lengur ástæðu til þess að hangsa mikið lengur á þessu tilveruplani og eiga þannig í áframhaldandi samskiptum við móður sína. Því var það sjálfur miðillinn sem ríghélt svona í fortíðina og kom þannig í veg fyrir það að fjölskyldan gæti syrgt dótturina sem dó og haldið þannig áfram með sitt eigið líf. Þegar skilaboðin komast loksins til skila eru þau svo innilega einföld og áhrifarík að mesta furða þykir af hverju orðin höfðu ekki löngu verið sögð. Í Vitjunum eru skilaboðin að handan sú að það þurfi ekki eingöngu að horfast í augu við drauga fortíðar, vingast við þá og ná með þeim sáttum, heldur þurfi einnig að sleppa af þeim takinu. Þetta á við hvort sem um ræðir áframhaldandi ofbeldi, erfðan alkóhólisma eða leynd fjölskyldubönd áratugagamals framhjáhalds. Ef söguþráðurinn virðist stundum flæktur um of, eða sápuóperan stundum helst til dramatísk, jafnvel þegar hún þurfi ekki að að vera það, er það því mögulega táknrænt fyrir skilaboð sögunnar í heild. Þau skilaboð snerta öll okkar sem eiga í hverskyns íslenskum fjölskylduerjum, því þó að áföll geti sannarlega slitið fjölskyldur í sundur geta þau rétt eins komið þeim saman á ný. Það eina sem þarf til er að drösla leyndarmálunum upp á yfirborðið og eiga þetta erfiða samtal sem þú og þínir hafa verið að forðast.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR