„Það er frískandi að sjá þetta gráa og grimma borgarlandslag á bíótjaldinu,“ segir Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í umsögn sinni í Morgunblaðinu um Berdreymi Guðmundar Arnars Guðmundssonar.
Jóna skrifar:
Guðmundur Arnar Guðmundsson býður áhorfendum upp á ferskt íslenskt efni. Það er frískandi að sjá þetta gráa og grimma borgarlandslag á bíótjaldinu. Íslenska náttúruklámið þar sem náttúran fær aðalhlutverkið í myndinni er orðið þreytt. Langstærsti hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu. Íslensku náttúrumyndunum má líkja við lundabúðirnar á Laugaveginum, það poppa alltaf fleiri upp þótt nóg sé til af þeim. Berdreymi stuðlar kannski ekki að sterku orðspori Íslands eins og kvikmyndastefnan til ársins 2030 ætlast til enda er það skrýtin krafa gerð til listgreinarinnar. Guðmundur sannar hins vegar, með annarri kvikmynd sinni í fullri lengd eftir hina margverðlaunuðu mynd Hjartastein (2016), að kvikmyndaformið er listform sem hægt er að nýta til að segja sögur áður ósagðar.
Fjórir íslenskir unglingsstrákar upplifa sig utangarðs í Reykjavík í kringum 1990 og sækja stuðning hver frá öðrum. Saman eru þeir sterkir, jafnvel hættulegir. Vandræði strákanna stigmagnast með hverjum deginum sem þeir eyða saman. Vinátta þeirra er sönn og inniheldur mikla ást en hvort hún gerir þeim gott eða ekki er stóra spurningin. Þeir eru slagsmálahundar með sterka réttlætiskennd sem mörgum þykir eflaust kaldhæðnislegt en þeim mun alvarlegri sem voðaverkin eru þeim mun betri ástæða er fyrir þeim. Þeir eru Hrói höttur borgarinnar, ef hann hefði reykt aðeins of margar sígarettur, drukkið einum of mikið og ætti erfitt með skap sitt.
Leikstjórinn, Guðmundur Arnar Guðmundsson, segist í viðtali við Morgunblaðið hafa upplifað þessa grimmu menningu eins og hún birtist í myndinni þegar hann bjó í Árbænum sem unglingur í kringum 1990-2000. Það má því segja að Berdreymi sé lauslegt endurlit í fortíð leikstjórans og líkist að því leyti kvikmynd Jonahs Hills, Mid90s (2018) þar sem hann sækir í minni fortíðar. Fyrsti hluti Berdreymis er ekki svo ólíkur Mid90s . Í Mid90s segir frá Stevie sem flýr erfiðar heimilisaðstæður og eignast nýja vini sem hann hittir í hjólabrettabúð. Balli, ein aðalpersónan í Berdreymi , er ekki svo ólíkur honum. Hann býr einnig við erfiðar heimilisaðstæður og í byrjun myndarinnar er hann eineltisfórnarlamb sem á enga vini. Addi, aðalpersóna myndarinnar, tekur hann þá undir sinn verndarvæng og verður Balli þá hluti af genginu ásamt Konna og Sigga. Í fyrsta hluta myndarinnar er áhorfendum þannig gefinn tími til að kynnast strákunum um leið og þeir kynnast hver öðrum. Við byrjum að elska strákana þrátt fyrir alla áberandi galla þeirra. Þeir eru jafn góðir og þeir eru vondir. Þeir eru jafn mikil börn og þeir eru fullorðnir. Þeir eru alltaf mitt á milli.
Leikhópur myndarinnar er gríðarlega sterkur og eiga drengirnir sem leika fjögur stærstu hlutverkin allt lof skilið. Ljóst er að Guðmundur er mjög fær í að vinna með börnum og unglingum. Birgir Dagur Bjarkason kemst hvað næst því að vera aðalpersónan og gerir það listilega. Hann hefur mikla persónutöfra og á auðvelt með að miðla þeirri togstreitu sem á sér stað innra með Adda í gegnum andlitsdrættina. Áskell Einar Pálmason sem leikur Balla gerir einnig vel en ótrúlegt er að fylgjast með því hvernig líkamsbeiting hans breytist í gegnum söguna þegar hann áttar sig á því að hann stendur ekki lengur einn. Snorri Rafn Frímannsson leikur síðan trúðinn í vinahópnum, Sigga, og er nauðsynlegt grínstoðtæki (e. comic-relief). Það er hins vegar Viktor Benóný Benediktsson sem stelur senunni. Viktor leikur Konna, fant hópsins, sem sífellt kemur þeim í vandræði. Hann er ekki einföld sögupersóna og sýnir Viktor margar sannfærandi hliðar Konna, t.d. þá sem er tilbúin að berja mann til dauða og aðra sem baðar drullugan vin sinn í væntumþykju.
Guðmundur er flinkur að spila með væntingar áhorfenda. Hann sýnir t.d. hvernig strákarnir leita í líkamlega nánd sem einhvers konar staðfestingu á ást þeirra sín á milli. Við áhorfendur erum óvanir að sjá slíka birtingarmynd karlmennsku á bíótjaldinu og drögum þá ályktun að þeir hljóti að vera eitthvað meira en vinir. Það getur vel verið en það skiptir engu máli fyrir söguframvinduna. Það sem Guðmundur gerir aðeins er að sýna karlmenn sem tilfinningaverur. Það eru einungis okkar fyrirframmótuðu hugmyndir sem draga þá ályktun að þeir séu í hlutverki kynveru. Guðmundur skapar einnig spennu á mjög frumlegan máta, hann fær okkur til þess að trúa á hið yfirnáttúrulega, jafnvel okkur trúleysingjana. Berdreymi kallast það þegar einstaklingur getur séð fyrir óorðna atburði í draumi en Addi uppgötvar hægt og rólega í gegnum myndina að hann er berdreyminn líkt og móðir hans. Addi verður þannig miðja spennunnar og vopn Guðmundar. Í gegnum Adda eru áhorfendur varaðir við að eitthvað slæmt sé að fara að gerast og þannig heldur Guðmundur okkur á tánum þangað til atburðurinn á sér stað.
Það er ekki hægt að tala um Berdreymi án þess að tala um kvikmyndatökuna eftir Sturlu Brandth Grøvlen sem er ein sú besta sem sést hefur í íslenskri kvikmynd. Langflestar senurnar eru teknar með handheldri tökuvél sem er mjög viðeigandi fyrir þessa mynd enda strákarnir sífellt á hlaupum eða í slagsmálum. Ofbeldissenurnar eru virkilega vel gerðar og minna helst á óreiðukenndu bardagasenurnar í Bourne -myndunum. Mörg skotin mynda sterka tilfinningu og vekja eins konar fortíðarþrá meðal áhorfenda. Kvikmyndatakan ein og sér á þó ekki allt hrós heldur allir þeir sem tóku þátt í að skapa myndheildina, eins og leikmyndahönnuðurinn Hulda Helgadóttir og búningahönnuðurinn Helga Rós V. Hannam. Sagan gerist í kringum 1990 og er það tímabilið sem birtist á skjánum í gegnum hallærislega karate-dojoið og hlýrabolina svo eitthvað sé nefnt.
Í Berdreymi er oft hætta á váhrifum og því ekki hæf börnum yngri en 14 ára. Hún er hins vegar ekki þessi klassíska niðurdrepandi kvikmynd því þrátt fyrir erfiðar aðstæður strákanna ríkir mikil von.
Berdreymi hlaut Europa Cinemas Label-verðlaunin sem besta evrópska myndin í Panorama-flokki á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar og ekki að ástæðulausu. Kvikmyndin er góð í alla staði og er það ekki bara Guðmundi, Sturlu eða þessum ungu og efnilegu leikurum að þakka heldur öllum þeim sem stóðu á bak við myndina enda er kvikmyndaverk teymisvinna.