[Plakat] ALLRA SÍÐASTA VEIÐIFERÐIN væntanleg í mars

Kvik­mynd­in Allra síðasta veiðiferðin verður frum­sýnd í kvik­mynda­hús­um fyrri hluta mars­mánaðar. Þetta er sjálf­stætt fram­hald af gam­an­mynd­inni vinsælu Síðasta veiðiferðin.

Fjallað er um þetta í Sporðaköstum á mbl.is og þar segir:

Leik­ara­hóp­ur­inn er fjöl­menn­ari en í fyrri mynd­inni og þar má fyrst­an til telja stór­leik­ar­ann Sig­urð Sig­ur­jóns­son sem fer með hlut­verk tengdapabba Vals Aðal­steins­son­ar fjár­fest­is, sem Þor­steinn Bachmann leik­ur. Aðstand­end­ur mynd­ar­inn­ar segja að þar hitti skratt­inn ömmu sína og vísa til veiðifrekju Vals.

Þeir Mar­kel-bræður, Þorkell Harðar­son og Örn Marinó Arn­ar­son, sem leik­stýra og fram­leiða mynd­ina, líta hvor á ann­an þegar spurt er: Er þetta betri mynd en Síðasta veiðiferðin?

„Hún er stærri. Fleiri leik­ar­ar og meiri læti. Já og meira rugl og áfengi,“ svar­ar Örn Marinó. Þorkell bæt­ir við: „Já, það bæt­ast inn leiðsögu­menn í henni og lög­reglu­kon­urn­ar spila stærra hlut­verk og hún er stærri í sniðum.“

Þeir fé­lag­ar segja að auðveld­ara hafi verið að gera þessa mynd. Góður orðstír fyrri mynd­ar­inn­ar hafi þar hjálpað. „Okk­ur var tekið ótrú­lega vel og það opnuðust all­ar dyr fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Þorkell.

Um­gjörðin er ekki af verri end­an­um en tök­ur fóru fram í Aðal­dal í sum­ar sem leið. Þeir fé­lag­ar eru sem sagt að fara í drottn­ing­una. Yf­ir­skrift­in á plakat­inu fyr­ir mynd­ina er: „Það má ekk­ert klikka í þess­um túr.“

Þegar Þorkell er spurður út í þessa yf­ir­skrift svar­ar hann ein­fald­lega: „Leiðin til hel­vít­is er vörðuð góðum ásetn­ingi.“

Allra síðasta veiðiferðin verður frum­sýnd í kvik­mynda­hús­um fyrri hluta mars­mánaðar og mun dag­setn­ing ráðast af sam­komutak­mörk­un­um og stöðu heims­far­ald­urs­ins.

Tök­ur á þriðju mynd­inni fara fram í sum­ar og ber hún vinnu­heitið Langsíðasta veiðiferðin. Að stærst­um hluta er um að ræða sama leik­ara­hóp eða eins og Örn Marinó orðar það: ein­hverj­ir detta út og nýir koma í staðinn. Bara eins og ger­ist hjá veiðihóp­um. Um­gjörðin í þeirri mynd verður sama og í Síðustu veiðiferðinni. Hóp­ur­inn fer aft­ur í Mýr­arkvísl og verður mynd­in tek­in upp þar.

HEIMILDMbl.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR