María Guðmundsdóttir, leikkona og hjúkrunarfræðingur, lést á Landspítalanum í gærmorgun 86 ára að aldri.
Vísir segir frá:
María fæddist þann 9. nóvember 1935 og starfaði lengi sem hjúkrunarfræðingur. Það var þó ekki fyrr en hún var um sextugt sem hún fór að leika en þá gekk hún til liðs við Leikfélag Mosfellssveitar.
„Svo hefur þetta rúllað. Ég hef verið í sjónvarpsþáttum bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Og nú er ég komin á eftirlaun og hef því nægan tíma. Ég fór ekki að spila bridds eða golf, ég fór að leika,“ sagði María í viðtali við Fréttablaðið árið 2011.
Þá hafði hún slegið í gegn í þáttunum Konfekt á Skjá einum nokkrum árum fyrr en eftirminnilegt atriði má sjá hér að neðan.
„Það var nú allsvakalegur þáttur,“ sagði María í viðtalinu og hló.
„Fólk hneykslaðist nú svolítið á honum, en maður ansar ekki svoleiðis. Fólk hefur auðvitað rétt á sínum skoðunum, en ef maður fer ekki yfir strikið þá finnst mér þetta allt í lagi. Bara gaman að þessu.“
María fór sömuleiðis á kostum í sjónvarpsþáttunum Steindinn okkar á Stöð 2. Þar var húmorinn oft grófari en gekk og gerðist í íslensku gríni.
Steinda tókst aldrei að hneyksla Maríu
María sagði Steinþór Hróar Steinþórsson, Steinda, þó aldrei hafa tekist að hneyksla sig þegar hann bæri undir hana hugmyndirnar.
„Veistu það, þegar maður er orðinn svona gamall þá er maður til í allt,“ sagði María hlæjandi.
„Það getur ekki orðið verra!“
Þá lék María í bíómyndum á borð við Perlur og Svín, Ungfrúin góða og húsið og Stella í framboði. Þá kom hún fram í sjónvarpsþáttum á borð við Fóstbræðrum, Næturvaktinni, Ghetto betur og Steypustöðinni.
Steindi sagði í viðtali árið 2016 að hann vildi helst ekki gera neitt án þess að vinna með Maríu. Hún væri leynivopnið.
María lætur eftir sig dóttur, barnabörn, stjúpbörn og fjölskyldu. Útförin verður auglýst síðar.