Lestin um ÞRIÐJA PÓLINN og Á MÓTI STRAUMNUM: Prinsessurnar sem frelsuðu sig sjálfar úr álögum

Þriðji póllinn og Á móti straumnum eru frábærar heimildamyndir um litbrigði lífsins sem fá áhorfendur til að fella tár og taka bakföll af hlátri, segir Júlía Margrét Einarsdóttir í Lestinni á Rás 1.
Júlía Margrét skrifar á vef RÚV:

Langt langt í burtu, í frumskógi Nepals, gerist heimildarmyndin Þriðji póllinn sem var opnunarmynd RIFF í ár og er það vel verðskuldað. Myndin er í leikstjórn Anni Ólafsdóttur kvikmyndagerðakonu og Andra Snæs Magnasonar rithöfundar. Í skóginum er kona að nafni Anna Tara Edwards alin upp af foreldrum sínum, breskum föður og íslenskri móður. Á meðan íslensk börn kynnast hoho og kusu og fá gæludýrabúðarræktaðan naggrís í afmælisgjöf þekkti Anna Tara tígrisdýrin og nashyrningana, nágranna sína, og afmælisgjöfin hennar var fílsungi. Allt er þetta nógu ævintýralegt að mínu mati til að halda uppi heilli kvikmynd en Þriðji póllinn fjallar ekki bara um heimkynni Önnu.

Sagan hefst þegar Anna Tara hefur samband við tónlistarmanninn Högna Egilsson og biður hann að koma fram á tónleikum sem hún hyggst standa að í Nepal. Þeim er ætlað að vekja athygli á geðrænum sjúkdómum og hjálparlínu fyrir fólk með geðrænan vanda sem Anna Tara setur á fót í landinu. Anna er nefnilega, líkt og móðir hennar, með geðhvörf. Hún fékk innblástur til að stíga fram og opna umræðuna um sjúkdóminn þegar hún sá að Högni hefði sjálfur greint frá sinni glímu við hann. Leikstjórarnir komu þannig inn í spilið að þau ferðast með Högna, að hans frumkvæði, til Nepal til að taka tónleikana upp. Sjálf segjast þau fljótlega hafa áttað sig á því þegar þangað var komið að þau væru með töluvert stærra verk í höndunum en tónleikaupptöku.

Umhverfið er stórbrotið og það er magnað að fá að skreppa í heimsókn í veruleika sem er svo fjarri septembergráma í Reykjavík. Enn merkilegra fannst mér samt að fá að hlýða á tvo ólíka einstaklinga tengjast hvort öðru, en líka leikstjórum og áhorfendum, og sögur þeirra af lífinu með erfiðan sjúkdóm, og öllum hliðum hans. Leikstjórarnir njóta þess að leyfa landslaginu að ýta undir frásögnina og Högni er auðvitað eins og sniðinn inn í sviðsmyndina með flaksandi faxið, hattana og skikkjurnar og allt er þetta ljóðræn veisla fyrir augað og önnur skynfæri. Eldur snarkar í dimmri nótt og Högni syngur ljúfsár lög í kyrrðinni á meðan frumskógardýr hvæsa og gagga í bakgrunni.

Stundum verður myndin meira eins og vídeóverk eða tónlistarvídeó og jafnvel á köflum óþarflega tilraunakennt og listrænt  fannst mér á köflum því sögurnar og persónurnar þurfti ekki að skreyta svo mikið. Þegar tvíeykið stillir sér til dæmis upp fyrir dramatíska töku með fílunum og myndefnið minnir á eitthvað sem gæti verið  á plötuumslagi fyrir emó poppmetalhljómsveitina Evanescence fannst mér um stund aðeins of mikið af uppstilltri dramatík. En þá gerðist það óvænta, akkúrat þegar fílarnir stóðu kjurrir og pils Önnu Töru og Högna flöksuðu í takt þá kláraðist batterí í einni myndavélinni svo ekki var hægt að klára tökuna. Þegar það var tilkynnt datt orkustigið niður, Anna Tara og Högni gátu hlegið með leikstjórunum og allur salurinn varpaði öndinni léttar og hló. Þegar myndin breytir um stefnu kemur nefnilega leikgleðin inn og það er fjör þegar hún gerir grín að sjálfri sér. Maður fær persónulega hlutdeild í óvissuferðinni og það er hressandi hvernig leikstjórar taka áhættu í stað þess að fara auðveldu leiðina en leyfa okkur að hlæja með þegar öðruvísi fer en ætlað var.

Sögurnar sem þau Högni og Anna Tara segja eru virkilega eftirtektarverðar, grátbroslegar, stundum sprenghlægilegar en líka þyngri en tárum taki og þó var grátið í salnum. Mér fannst til dæmis sérstaklega dýrmætt að sjá þegar Anna Tara opnar fjölskyldualbúmið og sýnir myndir og myndskeið úr æsku af móður sinni sem féll frá fyrir aldur fram. Það er svo fallegt að sjá móðurástina en átakanlegt þegar maður veit hvernig fór. Anna Tara getur þannig lýst því bæði hvernig er að vera með geðhvörf en líka því hvernig það er að vera nánasti aðstandandi manneskju með sjúkdóminn og það litaði æsku hennar mikið. En þó það sé ljóst að traustið á milli leikstjóranna og hennar sé augljóst þá biður Anna Tara stundum um að þurfa ekki að svara spurningunum lengur þegar minningar verða of sárar. Í sjálfu sér þegar ég pæli í því sagði það kannski meira en lýsingar á sjálfum atburðum kynnu að hafa gert.

Högni lét hins vegar gamminn geysa eins og honum er tamt og sagði skemmtisögur af sjálfum sér, frá upplifun sinni af maníum og hvernig honum birtust dularfull skilaboð frá heiminum eða almættinu eins og hann væri útvalinn. Ein besta sagan fannst mér af því þegar hann í slíku ástandi kynntist heimilislausu ljóðskáldi og dró hann í stúdíó með grunlausum hljómsveitarfélögum sínum í Hjaltalín og sagði þeim að spila undir á meðan maðurinn flytti ljóð sín. Þó það væri hægt að hlæja að frábærum og myndrænum lýsingum hans voru sterkustu mómentin líklega þegar alvaran bankaði upp á. Því geðsjúkdómar eru ekkert grín og við erum mjög harkalega minnt á það þegar Högni fær í myndinni símtal að heiman þar sem honum er greint frá fráfalli vinar síns sem var með sama sjúkdóm. Geðhvörf eru dauðans alvara, eins og Högni segir sjálfur aðspurður í myndinni, hvar hann væri ef hann hefði ekki fengið hjálp. „Ég væri bara dáinn.“

Andri Snær lýsir myndinni reyndar sjálfur sem ævintýri fílaprinsessunnar sem er í álögum, sem eru geðhvörf og skömm, og eina leiðin til að aflétta álögunum er að segja nafnið á óvættinum. Þar kemur næsta mynd inn, sem einnig var sýnd á RIFF, því hún fjallaði einnig um prinsessu í álögum. Eina leiðin fyrir hana að aflétta sínum álögum reyndist líka vera að segja töfraorðið.

Veiga Grétarsdóttir er nefnilega trans kona sem stærstan hluta ævi sinnar lék það hlutverk sem samfélagið úthlutaði henni og lét sem hún væri karl, allt þar til hún gat ekki lengur verið í því gervi. Hennar sigur var fólginn í því, rétt eins og Önnu Töru og Högna, að stíga fram og segja sjálfri sér og heiminum hver hún væri. Því hún er ekki karlinn sem samfélagið hélt hún væri heldur kona.

Og ferlið var ekki sársaukalaust fyrir Veigu, það er áþreifanlegt í kvikmyndinni Á móti straumnum eftir Óskar Pál Sveinsson. Óskar fylgir Veigu síðustu skref hennar í kynleiðréttingarferlinu, sem hún hefur nú lokið, en einnig í öðru ferðalagi. Veiga er nefnilega fyrsta íslenska konan til að róa á kajak í kringum landið og það gerði hún meira að segja rangsælis, á móti straumnum. Heimili Veigu og sviðsetning sögu hennar er ekki frumskógur í Nepal heldur Ísafjörður, þar sem Veiga sleit barnskónum í rammíslensku umhverfi. Myndin hefur að mínu mati töluvert skýrari stefnu og strúktúr en Þriðji póllinn og byggist upp af myndefni og viðtölum við bæði Veigu sjálfa en einnig fjölskyldu hennar og vini sem deila sinni sýn á Veigu á öllum skeiðum lífsins. Það jók á dýptina að heyra af ferlinu frá ólíkum hliðum.

En báðar myndirnar áttu það sameiginlegt að græta salinn og láta hann taka bakföll á sömu stundu nánast enda áhugavert fólk með erfiða en merkilega sögu af mótlæti, ótta og loks sigri í lífinu. Systir mín sagði einmitt eftir nokkrar mínútur af myndinni þar sem hún hló með tárin lekandi niður kinnarnar að það hlyti að vera heimildarmynd til hróss að henni takist að láta mann gera hvort tveggja án þess að vera byrjuð almennilega. Og það er líklega rétt. Það má líka segja að í Á móti straumnum komumst við nær viðfanginu því Óskar gefur Veigu lítinn grið á ferðalagi sínu, spyr hana nærgöngulla spurninga sem Veiga svarar og veitir þannig innsýn í ótrúlegt lífshlaup og erfiðan feluleik. Sjálf sagðist Veiga í viðtali hafa stundum nánast langað að sigla bara á einhverja eyju eftir erfiðan róður frekar en að mæta Óskari með spurningar hans um erfiðustu kafla lífs hennar. En Veiga svarar og hún er óvægin við sjálfa sig en gerir líka mikið grín að lífinu og baráttunni eins og Högni og Anna Tara geta líka gert.

Ferðalag Veigu á kajak í kringum landið er lífshættulegt, það hafa margir týnt lífi í slíkum ferðum enda sjórinn óútreiknanlegur og gefur ekki alltaf grið. En það getur á margan hátt verið lífshættulegt að einfaldlega vera trans. Víða um heim lendir trans fólk í ofsóknum og er skelfilega oft fórnarlömb morða og ofbeldisglæpa fyrir að vera þau sjálf. Að vera trans en viðurkenna það ekki fyrir sjálfri sér eða sínum nánustu reyndist Veigu einnig lífshættulegt. Hún, líkt og Högni, viðurkennir að hefði hún ekki stigið þetta skref og komið út væri hún líklega ekki á meðal vor enda hefur hún tvisvar reynt að taka eigið líf. En í staðinn fyrir að kveðja birtist hún heiminum og bauð eigin fordómum og samfélagsins byrginn og sagði: Ég er kona. Og það er svo fallegt og hugrakkt.

Í lokin er það prinsessan, laus úr álögum, sem stígur á land á Ísafirði eftir kajakróður alveg eins og prinsessan í Nepal steig á svið á tónleikum og vakti máls á málefnum fólks með geðræna sjúkdóma. Það er óhætt að mæla með Þriðja pólnum og Á móti straumnum sem eru frábærar heimildir um litbrigði lífsins og tilefni til að fagna prinsessum eins og Veigu og Önnu Töru sem frelsuðu sig úr álögum sjálfar og eru því hetjur í eigin ævintýri.

Sjá nánar hér: Prinsessurnar sem frelsuðu sig sjálfar úr álögum

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR