Heimir Jónasson, fyrrum dagskrárstjóri Stöðvar 2, er látinn, 53 ára að aldri.
Heimir fæddist 13. apríl 1966. Hann útskrifaðist frá framleiðsludeild Hochschule für Fernsehen und Film í München árið 1995 og var dagskrárstjóri Stöðvar 2 á fyrsta áratug þessarar aldar. Sem slíkur sinnti hann ýmiskonar uppbyggingu kvikmynda- og sjónvarpsgreinarinnar, meðal annars með setu í stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar og skrifum í Land & syni, málgagn kvikmyndagerðarmanna. Síðar stofnaði hann framleiðslufyrirtækið Icelandic Cowboys sem sinnti þjónustu við kvikmyndagerðarmenn og var framleiðslustjóri Latabæjar um hríð.
Hann starfaði einnig að markaðsmálum, meðal annars hjá Íslensku auglýsingastofunni, Icelandair, Dale Carnegie og Markaðsstofu Kópavogs.
Heimir lést á líknardeild Landspítalans síðastliðinn laugardag, en hann greindist með taugahrörnunarsjúkdóminn CBGD í byrjun árs 2018.
Heimir lætur eftir sig eiginkonu, Berglindi Magnúsdóttur, og þrjú börn, þau Markús, Áshildi og Silju.
Sjá nánar hér: Heimir Jónasson er látinn – Vísir