Steve Gravestock, einn dagskrárstjóra Toronto hátíðarinnar, hefur gefið út bók um sögu íslenskra kvikmynda, A History of Icelandic Film. Gravestock þekkir vel til íslenskrar kvikmyndagerðar, en hann hefur haft umsjón með vali kvikmynda frá Norðurlöndum í yfir 20 ár.
Áhugi Gravestock á íslenskum kvikmyndum vaknaði um aldamótin, eða um það leyti sem hann tók við dagskrárstjórastarfinu. „Fá þjóðarbíó eru jafn áhugaverð og það íslenska“, segir hann við vef Norræna sjóðsins – „og íslensk menning er einnig óviðjafnanleg. Að skoða hið breiða svið hæfileikafólks sem hefur komið fram á undanförnum tveimur áratugum og fara í gegnum einstaka kvikmyndasögu Íslands hefur verið afar gefandi.“
Bókin, sem er um 200 blaðsíður, er fyrsta yfirlitsritið um íslenskar kvikmyndir í um tvo áratugi. Jannike Åhlund, þáverandi dagskrárstjóri Gautaborgarhátíðarinnar, skrifaði stutta bók á sænsku um efnið sem út kom 2000 (En sagolik (film)historia), en nokkrum árum áður hafði hinn kunni kvikmyndafræðingur Peter Cowie skrifað bókina Icelandic Films að undirlagi Kvikmyndasjóðs en hana má skoða hér.
Þess má geta að bæði Gravestock og Åhlund koma við sögu í nýrri þáttaröð um sögu íslenskra kvikmynda sem Ásgrímur Sverrisson stýrir og Þorkell Harðarson, Örn Marinó Arnarson og Guðbergur Davíðsson framleiða. Þættirnir, tíu talsins, verða sýndir á RÚV á næsta ári.
Sjá nánar hér: TIFF programmer Steve Gravestock publishes A History of Icelandic Film